Home / Fréttir / Ekki allt sem sýnist hjá Pútín

Ekki allt sem sýnist hjá Pútín

 

 

Vladimir Pútín Rússlandsforseti  og Xi Jinping Kínaforseti.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Xi Jinping Kínaforseti.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Eftir að kalda stríðinu lauk vonuðu stjórnendur vestrænna ríki að samskiptin við Rússland yrðu góð og þjóðin hluti af evrópsku fjölskyldunni. Um tíma leit út fyrir að svo yrði en er kom fram á 21. öldina seig á ógæfuhlið í samskiptum ríkja Atlantshafsbandalagsins og Rússlands. Innrás Rússa í Georgíu árið 2008 var mikið óheillaskref og ekki tók betra við þegar Rússar réðust inn í Úkraínu árið 2014 og innlimuðu Krímskaga.

NATO-ríkin brugðust hart við og settu m.a. viðskiptabann á Rússland. Við þetta einangraðist landið á alþjóðavettvangi. Þetta mátti m.a. sjá á fundi G20 ríkjanna í Brisbane árið 2014 þar sem Vladimir Pútín forseti Rússlands var vinalaus.

Staða Rússlands um þessar mundir

Að undanförnu hefur hagur Pútíns hins vegar vænkast töluvert. Breska tímaritið The Economist hefur fjallað um þennan viðsnúning. Tímaritið nefnir t.d. að samskipti Rússa og Kínverja hafi aukist mikið á undanförnum árum. Rússar hafa einnig haslað sér völl í Afríku sem m.a. má sjá af því að í október 2019 stóðu ráðamenn í Kreml fyrir ráðstefnu í Sotsjí sem leiðtogar rúmlega fjörtíu Afríkuríkja sóttu. Pútín hefur líka verið duglegur að nýta sér vanhugsaðar ákvarðanir stjórnvalda á Vesturlöndum sér til framdráttar. Nýjasta dæmið um það er ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að kalla bandarískt herlið heim frá Norður-Sýrlandi. Í kjölfar hennar sömdu Rússar og Tyrkir um öryggissvæði í norðurhluta landsins sem styrkir stöðu Rússa í heimshlutanum. Með samkomulaginu tókst Pútín jafnframt að grafa undan samstöðu NATOöríkjanna.

Til er orðatiltæki (sem Winston Churchill er m.a. skrifaður fyrir) sem segir að Rússland sé aldrei jafn veikt og það líti út fyrir að vera en að sama skapi sé það aldrei jafn sterkt og menn haldi. Þetta á eins við nú og áður. Þó Rússland komist oft í fréttirnar vegna þess að ráðamenn hafi náð góðum samningum við önnur ríki má ekki gleyma því að stjórnvöldum í Kreml gengur alls ekki allt í haginn. Þannig er efnahagur þessa auðuga lands álíka öflugur og Spánar sem er þrefalt fámennara ríki. Ekki bætir úr skák að tekjur Rússa hafa dregist saman sex ár í röð. Varast ber því að ofmeta stjórnkænsku Pútíns.

Rússland og Afríka

Gott dæmi eru samskipti Rússlands og Afríku. Þó Rússar hafi haldið fjölmenna alþjóðlega ráðstefnu með leiðtogum ríkja í álfunni hafa þeir ekki haft mjög mikið upp úr átaki sínu þar. Áhrif þeirra í álfunni eru a.m.k. mun veikari heldur en tengsl Bandaríkjanna, Evrópusambandsins og Kína við ríkin þar. Sem dæmi má taka að viðskipti Rússa við ríkin sunnan Sahara voru um fimm milljarðar dollara árið 2018. Á sama tíma var verðmæti viðskipta Bandaríkjanna við þessi ríki um 120 milljarðar dollara og Kína um 35 milljarðar dollara.

Lítil viðskipti Rússa við löndin þurfa ekki að koma á óvart þegar horft er til þess að ekkert verður úr mörgum þeirra samninga sem Rússar gera við löndin. Stundum renna samningaviðræðurnar líka út í sandinn. Þannig föluðust þeir eftir kjarnorkusamningi við Suður-Afríku en ekkert varð úr honum. Samvinna Rússa við löndin á hernaðarsviðinu er einnig takmörkuð og snýst oft aðeins um stöku sameiginlegar heræfingar.

Rússland og Kína

Sömu sögu er að segja af samvinnu Rússa og Kínverja. Ekki er allt sem sýnist í þeim efnum. Ríkin tvö eiga ýmislegt sameiginlegt svo sem eins og andúð leiðtoga þeirra á lýðræði. Áhugi Rússa á nánari tengslum við Kínverja snýst þó meira um fjármuni heldur en hugmyndafræði. Vildarvinir Pútíns í Rússlandi græða mikið á samvinnunni við Kína og vilja auka hana. Skammsýni ræður því för enda er augljóst að ekki er um bandalag jafningja að ræða. Hagkerfi Sovétríkjanna var tvöfalt stærra en Kína en nú er öldin önnur og er kínverska hagkerfið sex sinnum stærra en hið rússneska. Sterk staða Kínverja hefur m.a. leitt til þess að Rússar eru háðir þeim á orku- og tæknisviðunum. Annar augljós ókostur samvinnunnar við Kína varðar tengsl Rússa við ríki Mið-Asíu. Öldum saman hafa Rússar talið sig hafa rétt á áhrifum þar. Nú eru Kínverjar hins vegar að færa sig upp á skaftið í heimshlutanum.

Framtíð samskipta Rússlands og Vesturlanda

Fátt bendir til að samband Vesturveldanna og Rússlands breytist mikið á þeim árum sem Pútín á eftir í embætti. Honum gremst að áhrif landsins fara dvínandi á alþjóðavettvangi og helsta ráð hans virðist vera alþjóðleg ævintýramennska. Slíkir stjórnhættir skaða hagsmuni ríkja NATO. Þau eiga þó ekki að gefa Rússland upp á bátinn enda hefur það upp á margt að bjóða. Á sama tíma þurfa ríkin að sýna að þau búi yfir getu til að takast á við útþenslu- og ævintýramennsku stjórnvalda í Kreml af festu.

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …