Home / Fréttir / Ekkert maraþon við norðurpólinn í ár

Ekkert maraþon við norðurpólinn í ár

Barneo-ísstöðin
Barneo-ísstöðin

Rússar hafa í 18 ár samfellt opnað leið að norðurpólnum um þetta leyti árs þar sem þeir hafa sett upp svonefndar Barneo-ísstöð. Hún verður þó ekki opnuð í ár vegna pólitískra og veðurfræðilegra ástæðna. Frá þessu var skýrt á vefsíðunni Icepeople föstudaginn 12. apríl.

Ákvörðunin leiðir til þess að þeir sem hafa beðið í allt að tveimur vikum í Longyearbyen á Svalbarða eftir að komast til Barneo-stöðvarinnar verða af ferðinni.

Rússar hafa rekið þessa stöð á ísbreiðunni við norðurpólinn eða einhvers staðar norðan við 89° norður síðan 2002. Þeir hafa að jafnaði opnað hana í þrjár til fjórar vikur í apríl. Undir lok mánaðarins er ekki lengur unnt að treysta á að ísinn sé nógu öflugur til að bera stöðina eða þá sem koma þangað til að fara vinsæla 111 km langa leið á skíðum á norðurpólinn. Skíðagangan tekur sjö til tíu daga og er kennd við „síðustu gráðuna“.

Um 50 manna hópur ætlaði að fara til Barneo að þessu sinni til að taka þátt í Norðurpóls-maraþoninu. Alls var búist við 200 til 300 gestum í stöðina í ár.

Skíðagöngufólkið er sjö til tíu daga í sinni ferð en hlaupafólkið aðeins tvo daga. Er flogið með það í stutta heimsókn á pólinn sjálfan eftir að hlaupið hefur verið við stöðina.

Hlaupararnir greiða um 15.000 evrur  (2 m. ísl. kr.) fyrir að taka þátt, fyrir utan ferðakostnað til og frá Svalbarða. Þeir sem eru lengur í stöðinni greiða 20.000 (2,7 m. ísl. kr.) evrur eða meira fyrir dvölina þar.

Í ár urðu tafir á að Barneo-stöðin yrði opnuð 1.apríl eins og að var stefnt vegna vandræða við að leggja flugbraut á ísnum. Síðan tók við pólitísk rimma þar sem rússneskir embættismenn lögðu blátt bann við því að flugmenn frá Úkraínu flygju vélum til stöðvarinnar frá Svalbarða. Er þetta angi deilnanna vegna ráða yfir Krímskaga.

Leitað var til Kanadamanna og leigð flugvél frá þeim. Þegar til átti að taka föstudaginn 12. apríl eftir komu vélarinnar til Longyearbyen tilkynnti flugmaðurinn að veðurhorfur væru þannig að óvíst væri hvort unnt yrði að flytja fólk til Barneo-stöðvarinnar eða sækja það.

Við svo búið var tilkynnt að reynt yrði að nýju að ári og þeir nytu forgangs sem bókað hefðu í ár.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …