Home / Fréttir / Eiturefnaárásin: Aðild Rússa hafin yfir allan vafa, segir norskur herforingi

Eiturefnaárásin: Aðild Rússa hafin yfir allan vafa, segir norskur herforingi

Kjell Grandhagen
Kjell Grandhagen

Kjell Grandhagen, fyrrv. yfirmaður eftirgrennslanaþjónustu norska hersins, efast ekki um að Rússar standi að baki eiturefnaárásinni í Salisbury í Suður-Englandi sunnudaginn 4. mars.

„Þetta eru greinileg skilaboð frá Rússum um til hvers það getur leitt að svíkja eigin þjóð. Ég er ekki hissa á að Rússar beiti slíkum aðferðum,“ segir Grandhagen við Dagbladet í Osló laugardaginn 31. mars.

Nú eru réttar fjórar vikur síðan fyrrv. rússneski njósnarinn Sergej Skripal fannst meðvitundarlaus á garðbekk í Salisbury ásamt 33 ára gamalli dóttur sinni, Juliu. Lögreglan hefur komist að þeirri niðurstöðu að á þau hafi verið ráðist með taugaeitrinu novitsjok. Skripal er enn illa haldinn en dóttirin hefur náð sér.

Grandhagen segir ekki undarlegt að novitsjok-eitrið hafi verið notað.

„Þeir hefðu getað valið aðra aðferð en þessa. Nei, það er ekki tilviljun að þetta taugaeitur skuli notað. Með því vildu þeir senda skýr skilaboð,“ segir hann við Dagbladet.

Hann hafnar því einnig að gamlir óvinir rússneska njósnarans standi að baki árásinni og telur fyrirmælin hafa komið beint frá Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Rússar neita allri aðild að árásinni. Bretar telja á hinn bóginn að ekki sé nein önnur trúverðug skýring á árásinni en sú að Rússar standi að baki henni.

Norska ríkisstjórnin tók þátt í sameiginlegum aðgerðum vestrænna ríkisstjórna gegn Rússum með því að reka einn rússneskan sendiráðsmann frá Noregi.

Rússneska stjórnin hefur rekið einn norskan sendiráðsmann frá Rússlandi og ber honum að yfirgefa landið fyrir 9. apríl

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …