
Alexander Litvinenko hlaut hörmulegan dauðdaga haustið 2006 en fyrst nú í september 2021 næst niðurstaða í málinu sem snýr að því að eitrað var fyrir honum vegna gagnrýni hans á Vladimir Pútín Rússlandsforseta og samherja hans í Kreml. Enn er unnið að rannsókn svipaðra mála.
Notað var geislavirkt efni, polonium, til að taka Litvinenko af lífi og vöktu fréttir um aftökuna óhugnað fyrir um 15 árum. Óhugnaðinn mátti ekki aðeins rekja til þess að morðið á þessum opinskáa gagnrýnanda Pútins minnti á starfsaðferðir í kalda stríðinu heldur einnig vegna grimmdarinnar sem fólst í hrottalegum verknaðinum.
„Hann var lýstur látinn kl. 21.21 23. nóvember (2006): Fyrsta staðfesta fórnarlamb kjarnorkuárásar síðan ráðist var á Nagasaki,“ segir breski blaðamaðurinn Oliver Bullough í ítarlegum skrifum um málið.
Það leið ekki á löngu þar til unnt var að greina atburðarásina vegna þess að launmorðingjarnir, Andrej Lugovoj og Dmitrij Kovtun, höfðu skilið eftir sig geislavirka slóð frá Moskvu þvert yfir Evrópu og aftur til baka. Segir Bullough að jafnauðvelt hafi verið að fylgja slóðinni og „kattarsporum í blautri steypu“.
Bretar drógu lengi að rannsaka Litvinenko-málið til hlítar en í dánarskýrslu frá 2016 segir að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hafi „að líkindum samþykkt“ aftöku leyniþjónustumannsins fyrrverandi.
Nú fyrr í september tók Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) í Strassborg af skarið og sagði ábyrgðina á morðinu hvíla á rússneskum yfirvöldum.
Dómstóllinn sagði að augljóst væri að Lugovoj og Kovtun hefðu verið útsendarar rússneska ríkisins og eitrað fyrir Litvinenko.
„Ég er innilega ánægð. Þetta er einmitt það sem við vildum heyra,“ sagði ekkjan Marina Litvinenko sem hefur árum saman barist fyrir því að ábyrgð yrði varpað á þá sem gáfu fyrirmæli um morðið á eiginmanni hennar.
Annað heyrðist frá yfirvöldum í Moskvu eins og við mátti búast. Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sagði við rússnesku fréttastofuna Interfax:
„Af þessu má greinilega sjá að Mannréttindadómstóll Evrópu, sem lítur á sig sem alþjóðlegan dómstól, leggur sig fram um að gegna pólitísku hlutverki og ýta undir Rússahatrið sem nýtur svo mikilla vinsælda á Vesturlöndum.“
Ný ákæra í Skripal-málinu
Í mars 2018 reyndu útsendarar með tengsl við leyniþjónustu rússneska hersins, GRU, að eitra fyrir gagnnjósnaranum Sergej Skripal í heimabæ hans, Salisbury á Suður-Englandi.
Skripal, sem settist árið 2010 að í Bretlandi eftir skipti á njósnurum, og Júlía, dóttir hans, sættu eiturárás án þess að tækist að drepa þau. Á hinn bóginn andaðist saklaus heimamaður í Salisbury, Dawn Sturgess (44 ára), í júní 2018 eftir að hafa fengið á sig brot af eitrinu sem lá á víðangi í ilmvatnsglasi.
Í Skripal-atvikinu notuðu alkunnir útsendarar GRU, Aleksander Misjkin og Anatolij Tjepiga, novichok, taugaeitur þróað og framleitt í Sovétríkjunum sem hafði að minnsta kosti einu sinni verið notað við eiturmorð í Rússlandi.
Margir rannsakendur meðal annars á vegum alþjóðlegs hóps rannsóknarblaðamanna, Bellingcat, segja að þeir sem sendir voru til að eitra fyrir Skripal-feðgininum séu liðsmenn sérhæfðar deildar launmorðingja á vegum rússneska ríkisins og hafi þeir líf ýmissa annarra á samviskunni.
Nú í september ákærðu bresk yfirvöld þriðja rússneska GRU-manninn, Denis Sergejev, í tengslum við Skripal-málið. Sergejev er sagður hafa stjórnað aðgerðum frá hóteli við Heathrow-flugvöll í London.
Vegna Skripal-málsins versnuðu samskipti Rússa og yfirvalda á Vesturlöndum til mikilla muna og var fjölda rússneskra sendiráðsmanna víða vísað úr landi. Þá hafa stjórnvöld í Moskvu hert á ónotum í garð Breta.
Nýlega birti rússneska vikublaðið Argumenty i Fakti viðtal við Nikolaj Patrusjev, einn af gömlum starfsbræðrum Pútins í KGB og formann þjóðaröryggisráðs Rússlands. Hann kemur sjaldan fram opinberlega en í viðtalinu sagði hann Breta örvinglaða og árásargjarna þátttakendur í alþjóðastjórnmálum. Þeir hefðu einnig um langan aldur sýnt Rússumn fjandskap.
Í augum þeirra sem fara með völdin í Moskvu voru Litvinenko og Skripal báðir svikarar við stjórnkerfið þar sem þeir höfðu sagt sig úr lögum við rússnesku leyniþjónustuna eftir að hafa starfað innan hennar.
Það eru hins vegar fleiri réttdræpir í augum Moskvuvaldsins en þeir sem þekkja innviði leyniþjónustunnar. Skemmst er að minnast eituraðfararinnar að stjórnarandstæðingnum Aleksej Navalnyj í fyrra og tilraunar til að eitra fyrir
Dmitrij Bykov, skáldi og bókmenntamanni, sem er kunnur fyrir gagnrýni sína á Kremlverjum.
Framganga GRU-mannanna gagnvart Litvinenko og Skripal er ógn við líf fleiri en þeirra sem ætlunin ert að drepa, fjölda annarra er stefnt í hættu:
„Magnið að novichok í glasinu var töluvert og kynni að hafa drepið hundruð ef ekki þúsundir manna hefði því verið dreift meðal almennings,“ sagði Dean Haydon, stjórnandi and-hryðjuverkaaðgerða bresku lögreglunnar, á blaðamannafundi í Salisbury.
Heimild: Jyllands-Posten