Home / Fréttir / Eitrað fyrir rússneskum andófsmanni segja þýskir læknar

Eitrað fyrir rússneskum andófsmanni segja þýskir læknar

Pjotr Verzilov í sjúkrabíl í Berlín.
Pjotr Verzilov í sjúkrabíl í Berlín.

Læknar rússneska aðgerðasinnans Pjotrs Verzilovs í Berlín segja að mjög líklega hafi verið eitrað fyrir honum. Ekki sé nein önnur skýring á veikindum hans. Þau ógna ekki lengur lífi hans að sögn læknanna.

Pjotr Verzilov sem tengist rússneska andófshópnum Pussy Riot er nú undir læknishendi í Charité-sjúkrahúsinu í Berlín. Kai-Uwe Eckardt, einn af helstu læknum sjúkrahússins, sagði þriðjudaginn 18. september að allt sem þeir hefðu fundið og gögn frá læknum í Moskvu bentu til eitrunar.

Læknum í Berlín hefur ekki tekist að ákvarða nákvæmlega hvaða eitur var notað en þeir segja að það trufli taugakerfi Verzilovs.

Dr. Karl Max Einhäupl, formaður læknaráðs sjúkrahússins, sagði að ekkert benti til að Verzilov glímdi við langvarandi sjúkdóm eða neyslu fíkniefna.  Einhäupl bætti við að heilsa Vezilovs (30 ára) batnaði „dag frá degi“ hann væri ekki lengur í lífshættu en samt áfram í gjörgæslu.

Flogið var með Verzilov frá Moskvu til Berlínar laugardaginn 15. september á vegum Cinema for Peace Foundation og félagasamtaka sem styðja andóf á vegum Pussy Riot.

Verzilov og fleiri félagar í Pussy Riot sátu tvær vikur í rússnesku fangelsi fyrir að hafa truflað lokaleik HM 18 í Moskvu í júlí. Með þessu vildu andófsmennirnir mótmæla ofbeldi af hálfu lögreglunnar.

Verzilov er útgefandi Mediazona, netfréttasíðu sem helgar sig mannréttindabrotum í rússneskum fangelsum.

 

Heimild: dw

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …