Home / Fréttir / Eistneska ríkisstjórnin stofnar gagna-sendiráð í Lúxemborg

Eistneska ríkisstjórnin stofnar gagna-sendiráð í Lúxemborg

Les salles de serveurs d'un centre de données fonctionnant 100% à l'hydroélectricité

Eistneska ríkisstjórnin hefur ákveðið að velja Lúxemborg sem geymsluland fyrir öryggisafrit af gögnum eistneska ríkisins, þar séu innviðir bestir til þess. Þetta sagði Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, föstudaginn 30. júní.

Forsætisráðherrann nefndi engin nöfn í samtali við fréttamann EUobserver á blaðamannafundi í Tallinn en sagði „ýmis lönd hafa komið til álita“.

Eistneska stjórnin kallar þetta „gagna-sendiráð“ og segir að í því eigi að geyma afrit af gagnagrunnum á heilbrigðissviði, þjóðskrá og fyrirtækjaskrám.

„Þetta er fyrsta gagna-sendiráð í heimi,“ sagði Ratas sem ræddi við blaðamenn daginn áður en Eistlendingar tóku við forsæti í ráðherraráði ESB næstu sex mánuði.

Forsætisráðherrann fór fyrir skömmu til Lúxemborgar og skrifaði undir samning um gagna-sendiráðið við Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar.

Öll gögn sem varða tölvusamkipti eistneska ríkisins verða geymd í gagna-sendiráðinu. Að mati stjórnvalda landsins lamaðist stjórnkerfið ef opinberir gagnagrunnar hryndu eða yrðu eyðilagðir. Engin prentuð öryggisafrit eru geymd.

Eistneska ríkisstjórnin ákvað að hún ætti að eiga „lokaorðið“ og þess vegna væri ekki unnt að setja opinberu gögnin í geymslu hjá einkaaðila – „endanleg öryggisafrit“ yrðu geymd í opinberri vörslu erlendis. Sendiráð Eistlands erlendis væru hluti eistneska ríkisins utan eigin landamæra.

Við neyðaraðstæður heima fyrir gæti eistneska ríkisstjórnin starfað í krafti gagna-sendiráðsins. Talsmaður ríkisstjórnarinnar minnti á að útlagastjórn hefði starfað á meðan Sovétmenn hernámu Eistland.

Stefnt er að því að gagna-sendiráðið verði starfhæft í árslok.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …