Home / Fréttir / Eistlendingar og Finnar sameinast um kaup á þungavopnum frá Suður-Kóreu

Eistlendingar og Finnar sameinast um kaup á þungavopnum frá Suður-Kóreu

K9 Thunder sprengivörpudreki.
K9 Thunder sprengivörpudreki.

Eistlendingar búa sig undir að taka höndum saman við Finna við kaup á þungavopnum frá Suður-Kóreu. Talið er að hlutur Finna í viðskiptunum nemi að minnsta kosti 100 milljónum evra að sögn finnska ríkisútvarpsins, YLE þriðjudaginn 7. febrúar.

Um nokkurra ára skeið hefur finnski herinn kannað hagkvæmni þess að kaupa spengjuvörpudreka. Herinn hefur áhuga á að fá nýjar sprengjuvörpudreka í stað þess að nota fallbyssur af gamalli sovéskri gerð.

Undir lok árs 2016 kynntu fulltrúar hersins sér getu og hæfni sprengjuvörpudreka frá Suður-Kóeru af gerðinni K9 Thunder sem voru sendir til Rovajärvi í Finnlandi.  Á K9 Thunder bryndrekanum er 155 mm sprengjuvarpa sem nær til skotmarka í 40 km fjarlægð og drekanum má aka á næstum 70 km hraða á klukkustund.

Nú hefur verið ákveðið að kaupa dreka af þessari gerð frá Suður-Kóreu. Undir lok árs 2016 sagði finnski varnarmálaráðherrann Jussi Niinistö við blaðið Helsingin Sanomat að Finnar myndu bjóða Eistlendingum að taka þátt í viðskiptunum við Suður-Kóreumenn.

Magnus Tsahka, varnarmálaráðherra Eistlands, sagði mánudaginn 6. febrúar við vefsíðuna Defence News að Eistlendingar myndu eiga samleið með Finnum við vopnakaupin. Með því að eignast nýju sprengjuvörpudrekana styrktust varnir landsins og hreyfanleiki herafla þess ykist til mikilla muna.

Eistlendingar hafa hug á að kaupa minnst 12 sprengjuvörpudreka. Finnska stjórnin hefur ekki skýrt frá umfangi viðskiptanna af sinni hálfu. Talið að þau verði mun meiri en hjá Eistlendingum.

Talið er að Suður-Kóreumenn muni afhenda vopnin á árinu 2021.

Heimild: YLE

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …