Home / Fréttir / Eistland: Stjórnarandstaðan sigrar í þingkosningum

Eistland: Stjórnarandstaðan sigrar í þingkosningum

Kaja Kallas, leiðtogi Umbótaflokksins.
Kaja Kallas, leiðtogi Umbótaflokksins.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Eistlands, Umbótaflokkurinn, mið-hægri flokkur, sigraði Miðflokkinn, mið-vinstri flokk, í þingkosningum sunnudaginn 3. mars. Flokkur hægrisinna hlaut aukið fylgi í kosningunum.

Kjörstjórn tilkynnti að morgni mánudags 4. mars að Umbótaflokkurinn hefði fengið 28.8% atkvæða, 34 þingmenn af 101 í þinginu, Riigikogu. Flokkurinn hafði 30 þingmenn.

Miðflokkurinn fékk 23,9% og 26 þingmenn, fékk 27 í kosningunum 2014.

Þjóðernissinnaður hægriflokkur, Íhaldssami eistneski lýðflokkurinn, EKRE, fékk 17.8% og 19 þingsæti. Árið 2014 fékk flokkurinn 8,1% og jók nú þingmannafjölda sinn um 12.

Tveir flokkar sem setið hafa í ríkisstjórn með Miðflokknum, Isamaa og Jafnaðarmannaflokkurinn, fengu annars vegar 11,4% (12 sæti) og hins vegar 9,8% (10 þingsæti).

Úrslitin koma nokkuð á óvart miðað við að spár gerðu ráð fyrir að Miðflokkurinn yrði áfram stærsti flokkur landsins í harðri baráttu við Umbótaflokkinn.

Óljóst er um stjórnarmyndun.

Isamaa og jafnaðarmenn kunna að halda sig við Miðflokkinn eða snúa sér að Umbótaflokknum. Þá kunna Miðflokkurinn og Umbótaflokkurinn að taka höndum saman til að draga úr áhrifum EKRE.

Kjörsókn var 61%, það er 562.000 af tæplega milljón manna á kjörskrá kusu, um 25% gildra atkvæða bárust rafrænt.

Forsætisráðherra Eistlands kom úr Umbótaflokknum árin 2005 til 2016. Kaja Kallas, 41 árs, er nú leiðtogi flokksins en hún er dóttir Siims Kallas, fyrrverandi forsætisráðherra, stofnanda flokksins. Hún á sæti á ESB-þinginu og er eindregin í stuðningi við ESB. Hún hafnar samstarfi við EKRE en vill skoða alla aðra kosti.

Juri Ratas, forsætisráðherra og formaður Miðflokksins, sagðist „að sjálfsögðu“ fús til að skoða stjórnarsamstarf undir forystu Umbótaflokksins án þess að fara um það fleiri orðum.

Miðflokkurinn nýtur stuðnings fólks af rússneskum ættum sem er um 25% þjóðarinnar.

Ratas varð leiðtogi flokks síns árið 2016 og myndaði eftir það þriggja flokka stjórn í nóvember 2016. Miðflokkurinn gerði samkomulag við Sameinaða Rússlandsflokk Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta árið 2004. Ratas segir samkomulagið „fryst“ en hafnar að rifta því.

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …