Home / Fréttir / Einstæður fjöldabrottrekstur Rússa frá 21 ríki

Einstæður fjöldabrottrekstur Rússa frá 21 ríki

 

Rússneska sendiráðið í Berlín.
Rússneska sendiráðið í Berlín.

Stjórnir Bandaríkjanna og bandamanna hennar í Evrópu ákváðu mánudaginn 25. mars að rúmlega 100 rússneska sendiráðsmenn úr landi í sameiginlegri aðgerð til að mótmæla eiturefnaárásinni á fyrrverandi rússneskan njósnara og dóttur hans í Salisbury á Englandi. Ríkisstjórn Íslands ákvað að mótmæla Rússum á annan hátt.

Sagt er að aldrei fyrr hafi verið gripið til svo viðamikils sameiginlegs brottreksturs á rússneskum leyniþjónustumönnum. Um er að ræða 21 ríki sem lýsir samstöðu með Bretum á þennan hátt.

Rússar segjast ætla að svara þessari „ögrandi aðgerð“. Þeir neita allri aðild að árásinni á Sergei Skripal og Juliu, dóttur hans. Þau eru í sjúkra húsi, illa haldin.

Það varð sameiginleg niðurstaða leiðtoga ESB-ríkjanna í fyrri viku að Rússar hefðu mjög líklega staðið að baki eiturefnaárásinni.

Litið er á ákvarðanirnar um brottrekstur Rússanna sem mikla viðurkenningu fyrir málstað og málflutning Theresu May, forsætisráðherra Breta, gegn Rússum. Henni hafi tekist að sameina þjóðir austan hafs og vestan á einstæðan hátt.

Hér er listi yfir ríkin sem ráku Rússa úr landi innan sviga er fjöldi brottrekinna úr hverju landi: Bandaríkin (60), Frakkland (4), Þýskaland (4), Pólland (4), Tékkland (3), Litháen (3), Danmörk (2), Holland (2), Ítalía (2), Spánn (2), Eistland (1), Króatía (1), Finnland (1), Ungverjaland (1), Lettland (1), Rúmenía (1), Svíþjóð (1), Úkraína (13), Kanada (4), Albanía (2), Noregur (1).

Stjórnir ESB-landanna Austurríkis, Grikklands og Portúgals ætla ekki að reka neina úr landi en þær lýsa yfir stuðningi við Breta og fordæma eiturefnaárásina.

Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu mánudaginn 26. mars eftir að utanríkismálanefnd alþingis hafði komið til fundar við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í utanríkisráðuneytinu:

„Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins hafa ákveðið að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Í flestum tilvikum vísa þessi ríki rússneskum stjórnarerindrekum úr landi. Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri.

Eftir að hafa borið ákvörðun ríkisstjórnarinnar undir utanríkismálanefnd Alþingis kallaði utanríkisráðherra sendiherra Rússlands á sinn fund nú síðdegis og greindi honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“

Vladimir Uglev, sérfræðingur í gerð efnavopna í Sovétríkjunum, hafnar fullyrðingum rússneskra talsmanna um að Rússar hafi ekki framleitt nein efnavopn sem líkjast því sem notað var í Salisbury. Hann segir við The Guardian að svipað eitur hafi verið notað til að drepa rússneskan kaupsýslumann árið 1995. Uglev vann við sovéskar rannsóknir á þessu sviði á árunum 1972 til 1993. Efni eins og það sem notað var í Salisbury var ekki á lista um efnavopn sem Rússar lögðu fram við gerð efnavopnasamningsins árið 1993. Þess vegna er ekki til sýnishorn til samanburðar.

Uglev segir mjög litlar líkur á að breskum rannsakendum takist að tengja eiturefnið við sérstakt land eða rannsóknarstofu, þeir hafi sýnishorn af efninu í Salisbury en ekkert til samanburðar í gagnagrunni sínum og þess vegna geti þeir ekki sagt hvaðan efnið kemur.

Breska ríkisstjórnin hefur sagt „yfirgnæfandi líkur“ á að Rússar standa að baki árásinni og hafa stjórnvöld annarra landa tekið undir þá skoðun og gripið til ráðstafana í samræmi við það.

 

Heimild: BBC, The Guardian.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …