Home / Fréttir / Einróma afgreiðsla finnska þingsins á samstarfssamningnum um varnarmál við Bandaríkin

Einróma afgreiðsla finnska þingsins á samstarfssamningnum um varnarmál við Bandaríkin

Antti Häkkänen, varnarmálaráðherra Finnlands.

Finnska þingið afgreiddi tvíhliða samstarfssamning um varnarmál við Bandaríkin einróma mánudaginn 1. júlí. Samkvæmt samningnum heimila Finnar Bandaríkjaher afnot af 15 herstöðvum sínum. Þá er Bandaríkjamönnum einnig heimilt að flytja hergögn, birgðir og hermenn til Finnlands.

Í samningnum er gert ráð fyrir að til verði ákveðin hernaðarleg svæði í Finnlandi með aðstöðu sem verði eingöngu til afnota fyrir bandaríska liðsmenn.

Á grundvelli samningsins geta Bandaríkjamenn starfað og dvalist langdvölum í Finnlandi.

Anna Kontula, þingmaður Vinstri, lagði fram tillögu um að þingið hafnaði samningnum en enginn þingmaður studdi hana. Þingið greiddi því ekki atkvæði um samninginn og hlaut hann einróma afgreiðslu.

Þegar þingmenn ræddu samninginn föstudaginn 28. júní kom í ljós víðtækur stuðningur við efni hans.

Finnska stjórnlaganefndin sagði í júní að tveir þriðju þingmanna yrðu að greiða atkvæði með samningnum til að hann hlyti lögmæta afgreiðslu þar sem hann snerti ýmis ákvæði stjórnarskrár Finnlands.

Finnar hófu viðræður við Bandaríkjastjórn um gerð samstarfssamningsins þegar þeir sóttu um aðild að NATO í maí 2022 og brugðust þannig við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Bandaríkjastjórn hefur gert svipaðan samning við meira en 20 lönd, þ. á m. Danmörku, Noreg og Svíþjóð.

Antti Häkkänen, varnarmálaráðherra Finnlands, telur samninginn sérsniðinn að þörfum Finna sem ráða yfir mjög öflugum eigin her en segir jafnframt nauðsynlegt að búa í haginn fyrir herafla bandamanna sinna svo þeir geti komið á vettvang sé þess talin þörf í fælingarskyni.

Finnar líta til óvissunnar sem einkennir alla framgöngu Rússa og samleið þeirra með og samstarf við ríki eins og Norður-Kóreu og Íran. Häkkänen á nú í viðræðum við varnarmálaráðherra í ýmsum NATO-löndum til að árétta nauðsyn þess að Finnum sé tryggð hernaðarleg aðstoð í þágu eigin öryggis og annarra.

Eftir samþykkt tvíhliða samstarfssamningsins við Bandaríkin verður nú hafist handa við að skilgreina nánar hvar herir bandamanna Finna muni æfa á landi þeirra og geyma hergögn. Häkkänen segir Finna bæði hafa áhuga á viðvarandi dvöl erlends herafla í landi sínu og liðsafla sem komi þangað til tímabundinna æfinga.

Hann segir að samvinna við Norðmenn og Svía skipti sköpum til að tryggja snurðulausar flutningsleiðir fyrir menn og hergögn á milli landanna í Lapplandi, fyrir norðan heimskautsbaug.

Í samtali við finnska ríkisútvarpið, Yle, tíundaði Häkkänen ekki nákvæmlega hvaða hafnir, járnbrautir eða þjóðvegi þyrfti að endurbæta. Hann nefndi þó nauðsyn þess að leggja hraðbraut frá Tromsø í Noregi til Tornio í Finnlandi.

Finnar segja að á ríkisoddvitafundi NATO í Washington 9. og 10. júlí muni þeir árétta mikilvægi NATO fyrir Finna og áhersluna sem þeir leggja á að styrkja varnir bandalagsins undir sameiginlegri herstjórn bandalagsins í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum með stofnun undirherstjórnar fyrir landhernað í Finnlandi auk þess að búa í haginn fyrir væntanlega aðild Úkraínu að NATO.

Heimild: Yle

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …