
Nýr yfirmaður Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO), Tedros Adhanom Ghebreyesus fyrrverandi heilbrigðisráðherra Eþíópíu, hefur skipað Robert Mugabe, forseta Zimbabwe, sem vináttusendiherra samtakanna og falið honum það verkefni að berjast gegn langvinnum sjúkdómum (non communicable diseases). Tilkynnti forstjóri WHO þetta á fundi í Uruguay og fór lofsamlegum orðum um almenna heilsugæslu undir stjórn Mugabes.
Þó að hér sé einungis um heiðursnafnbót að ræða hefur skipunin verið harðlega gagnrýnd enda hefur stjórnartíð Mugabes einkennst af mikilli óstjórn. Stjórnarandstæðingar í Zimbabwe segja að tilnefning Mugabes í þessa heiðursstöðu sé „hlægileg“ fyrir utan að vera móðgun. Mugabe og fjölskylda hans hafi ekki meiri trú á heilbrigðiskerfinu í landi sínu en svo að þau leiti sér jafnan lækninga í Singapúr.
Valdatíð Roberts Mugabes er jafnlöng og saga ríkisins sem hann ræður yfir en það var stofnað árið 1980 í kjölfar friðarsamnings sem batt enda á 15 ára borgarastyrjöld milli hvítu minnihlutastjórnarinnar í Rhodesiu (forvera Zimbabwe sem eitt sinn var hluti af nýlenduveldi Breta en hlaut sjálfstæði árið 1923) og skæruliðahópa blökkumanna.
Á þeim 37 árum sem Mugabe hefur setið á valdastóli (hann er 93 ára núna) hefur hann gerst sekur um víðtæk mannréttindabrot og efnahagsstjórn hans hefur nánast rekið landið í þrot þrátt fyrir að í Zimbabwe séu ríkuleg náttúruauðæfi. Sem dæmi um slæma stöðu landsins má nefna að árið 2005 var kaupmáttur íbúa þar sá sami og hann var árið 1953.
Heilbrigðiskerfið í Zimbabwe er meðal þess sem liðið hefur fyrir óstjórn Mugabe. Það skýrir hneykslan margra á nýju embætti hans á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ).
Það er reyndar ekki nýtt af nálinni að SÞ tilnefni vináttusendiherra til þess að vekja athygli á einhverjum málefnum en líkt og pistlahöfundur á BBC bendir á er venjulega um að ræða vinsæla einstaklinga sem nota frægð sína til þess að safna peningum fyrir viðkomandi málstað.
Miðað við það orð sem fer af Robert Mugabe er erfitt að ímynda sér að skipan hans í nýja embættið styrki mikið baráttuna gegn langvinnum sjúkdómum. Þetta er miður því útbreiðsla þessara sjúkdóma er sannkallaður heimsfaraldur en þeir eru orsök 86% dauðsfalla í Evrópu og um 65% allra dauðsfalla í heiminum í dag samkvæmt nýlegri grein í Læknablaðinu.
Höfundur:
Kristinn Valdimarsson