Home / Fréttir / Einhugur um stuðning við Úkraínu á þriggja ríkja fundi í Berlín

Einhugur um stuðning við Úkraínu á þriggja ríkja fundi í Berlín

Emanuel Macron, Olaf Scholz og Donald Tursk á fundi í Berlín 16. msrs 2024.

Leiðtogar ríkjanna þriggja sem mynda svonefndan Weimar-þríhyrning, Frakklands, Póllands og Þýskalands, ræddu saman á fundi í Berlín föstudaginn 15. mars og lýstu sig „einhuga“ um það markmið sitt að Rússar fengju „aldrei að sigra“ og þeir myndu styðja Úkraínumenn „þar til yfir lyki“ svo vitnað sé til þess sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði.

Olaf Scholz Þýskalandskanslari stóð við hlið Macrons á blaðamannafundinum og sagði að bandamenn Úkraínumanna myndu veita þeim lið „eins lengi og þarf“. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sagði þá tala einum rómi. Blaðamenn fengu ekki tækifæri til að spyrja leiðtogana.

Fyrir þriggja manna fundinn hittust Macron og Scholz tveir. Sögðu fréttaskýrendur að þar hefðu þeir hreinsað andrúmsloftið sín á milli eftir að hafa ekki verið samstiga undanfarnar vikur í yfirlýsingum sínum um stefnuna gagnvart Úkraínu.

Þá hefur greint á um hvort Úkraínuher eigi að fá langdrægar skotflaugar og hvort þeir eigi að blanda sér beint í átökin innan Úkraínu.  Macron vill ekki útiloka afskipti fransks herliðs í Úkraínu en Þjóðverjar og aðrir evrópskir ráðamenn hafa lagst gegn slíkum áformum.

Franski forsetinn hefur ekki dregið í land en hann leggur áherslu á að vestrænir bandamenn Úkraínu muni ekki hafa frumkvæði að þessu leyti.

Donald Tusk sagði að Berlínarfundurinn hefði ekki einkennst af ágreiningi. „Við töluðum einum rómi í dag,“ sagði hann.

Fyrir fundinn sagði Tusk að í Berlín yrðu þeir þrír „að virkja alla Evrópu“ til að aðstoða stjórnina í Kyiv sem væri mjög aðþrengd.

ESB hefur ákveðið að ýta undir framleiðslu á vopnum og skotfærum í evrópskum hergagnasmiðjum. Þá er talið að ESB-ríki fari að fordæmi Tékka sem keyptu skotfæri utan ESB og sendu þau til Úkraínu.

Scholz gaf til kynna að stjórn hans íhugaði að senda langdrægar stórskotaliðsflaugar til Úkraínu en kanslarinn hefur til þessa ekki látið undan vaxandi þrýstingi um að flytja Taurus-flaugar til Úkraínu.

Til skýringar á hiki sínu hefur kanslarinn sagt að langdrægu flaugarnar gætu þvælt þýskum hermönnum inn í átökin og valdið hættu á stigmögnun. Scholz nefndi ekki Taurus á blaðamannafundinum 15. mars.

Spurningin um flaugarnar hefur verið sérstaklega viðkvæm í samskiptum Scholz og Macrons en Frakklandsforseti hefur sérstaklega hvatt bandamenn sína til að láta ekki „hugleysi“ ráða afstöðu sinni til stuðnings við Úkraínu.

Nú fagnaði Macron því að til sögunnar væri kominn „samstöðuhópur um djúpar árásir“ sem væri „opinn öllum í samræmi við getu þeirra og búnað“.

 

 

Heimild: AFP

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …