Home / Fréttir / Egyptar kaupa Mistral-skip af Frökkum

Egyptar kaupa Mistral-skip af Frökkum

Mistral-þyrlumóðurskip.
Mistral-þyrlumóðurskip.

François Hollande Frakklandsforseti og Abdel Fattah Sisi Egyptalandsforseti hafa náð samkomulagi um kaup Egypta á tveimur Mistral-þyrlumóðurskipum sem Frakkar hættu við að afhenda Rússum eftir að þeir innlimuðu Krímskaga í óþökk stjórnvalda í Úkraínu.

Í tilkynningu sem gefin var út miðvikudaginn 23. september kom fram að skuldbindandi samkomulag lægi fyrir milli forseta landanna um meginatriði sölusamnings.

Talsmaður franska forsetans sagði við Le Figaro af þessu tilefni að Frakkar mundu ekki tapa neinu vegna Mistral-skipanna þrátt fyrir einhliða riftun samninganna við Rússa.

Heimildarmaður innan rússneska hergagnaiðnaðarins sagði við RIA Novosti-fréttastofuna að stjórnvöld í Moskvu mundu ólíklega skipta sér að þessum samningi Frakka og Egypta, vinátta væri milli Egypta og Rússa.

Egyptar hafa gert samning um að kaupa 24 Rafales-orrustuþotur af Frökkum fyrir 5,6 milljarða dollara. Þá hafa þeir keypt freigátur og önnur herskip af Frökkum.

Frakkar greiddu Rússum 900 milljón evrur við riftun Mistral-samningsins en sagt er að kaupverð Egypta geti orðið allt að 1,2 milljarði evra.

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …