Home / Fréttir / „Ég hata þá. Þeir eru bastarðar og úrþvætti. Þeir vilja okkur Rússa alla dauða.“

„Ég hata þá. Þeir eru bastarðar og úrþvætti. Þeir vilja okkur Rússa alla dauða.“

Vladimir Pútin og Dmitríj Medvedev.

Dmitrij Medvedev, fyrrverandi forseti og forsætisráðherra Rússa, er nú varaformaður öryggisráðs Rússlands. Hann opnaði eigin síðu á samfélagsmiðlinum Telegram 17. mars 2022 tæpum mánuði eftir að innrásin hófst í Úkraínu. Þar hefur hann síðan haldið úti árásum á lýðræðislega stjórnarhætti, Vesturlönd og NATO.

Thomas Nilsen, ritstjóri norsku vefsíðunnar BaentsObserver, segir að færslur Medvedevs á síðu sína séu óvenjulega ruddalegar.

Óvild hans í garð vestrænna þjóða og Úkraínumanna er hatursfull.

Að morgni þriðjudags 7. júní sagði hann:

„Ég er oft spurður hvers vegna færslur mínar á Telgram séu svona grófar. Svarið er að ég hata þá. Þeir eru bastarðar og úrþvætti.“

Hann skrifaði einnig: „Þeir vilja okkur Rúss alla dauða. Á meðan ég lifi geri ég allt til að láta þá hverfa.“

Nilsen segir að Medvedev sé einn nánasti bandamaður einræðisherrans Vladimirs Pútins. Þeir skiptust á embættum árið 2012, Pútin varð forseti í þriðja skipti og Medvedev varð aftur forsætisráðherra.

Ári síðar kom hann til bæjarins Kirkenes í Norður-Noregi, rétt við rússnesku landamærin á Kólaskaga.

Hann kom til að fagna 20 ára afmæli Barentssamstarfsins og samskiptanna á landamærum Noregs og Rússlands.

Jens Stoltenberg var þá forsætisráðherra Noregs. Gengu forsætisráðherrarnir saman yfir landamærin og ræddu samstarf ríkjanna auk þess að ganga brosandi frá ýmsum samningum til að auðvelda samskiptin á landamærunum fyrir utan að staðfesta nýlegt samkomulag um markalínu milli landanna í Barentshafi.

Á blaðamannafundi af þessu tilefni fór rússneski forsætisráðherrann lofsorðum um vináttu þjóðanna og fagnaði ánægjulegum viðræðum sínum við Stoltenberg. Stjórnvöld þjóðanna hefðu á 20 árum lært að hlusta hvort á annað sem ætti að gera þeim kleift að vinna saman að lausn flóknustu mála.

Þetta sagði Medvedev 4. júní 2013 en norskir og evrópskir stjórnmálamenn litu á hann sem frjálslyndan þegar hann var forsætisráðherra. Níu mánuðum síðar, á árinu 2014, réðust Rússar inn í Donbas-hérað í austurhluta Úkraínu og innlimuðu Krímskaga. Gagnrýni Medvedevs í garð Vesturlanda hefur þyngst stig af stigi en 7. júní 2022 fór hún niður fyrir öll fyrri mörk.

Nilsen telur að andúð hans á Vesturlöndum sé birt til að ganga í augun á rússnesku öryggislögreglunni og harðlínumönnum, þeim sem hafa litið á Medvedev sem frjálslyndan léttavigtarmann í rússneskum stjórnmálum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …