
Alþjóðlegir eftirlitsmenn segja að þeir hafi fundið nýja gerð rússneskra skotflauga í austurhluta Úkraínu þar sem aðskilnaðarsinnar ráða. Starfsmenn ÖSE, Öryggissamvinnustofnunar Evrópu, sáu hinn hættulega TOS-1 Buratino fjöl-skotflaugapall í Luhansk.
Frá þessu var sagt föstudaginn 2. október á sama tíma og leiðtogar Úkraínu, Rússlands, Frakklands ræddu leiðir til friðar í Úkraínu. Eftir fundinn sögðu fulltrúar Frakka og Úkraínumanna að laugardaginn 3. október hæfist brottflutningur léttra vopna frá austurhluta Úkraínu.
Ráðamenn í Moskvu neita að þeir standi að baki aðskilnaðarsinnum í Úkraínu. Þeir hafna einnig ásökunum um að þeir sendi þungavopn til þeirra sem eru Rússavinir í Donetsk og Luhansk. Kremlverjar viðurkenna hins vegar að rússneskir „sjálfboðaliðar“ berjist við hlið aðskilnaðarsinna.
Starfsmenn ÖSE sem gæta þess í austurhluta Úkraínu að vopnahléið sér virt sögðust hafa fundið Buratino-skotpallinn á æfingasvæði hers sem starfar á yfirráðasvæði hins svonefnda Alþýðulýðveldis Luhansks.
Skotflaugarnar bera tvær tegundir af sprengjuoddum sem báðir valda miklu tjóni, annars vegar með eldsvoða hins vegar með spreningu. Talsmaður eftirlitsmanna ÖSE sagði við BBC að það markaði nokkur tímamót að hafa fundið skotflaugarnar vegna þess skapa sem þær gætu valdið.