
Fréttir birtast nú í fjölmiðlum um heim allan þar sem sagt er frá því að vaxandi fjöldi innvígðra í Kremlarkastala, valdamiðstöð Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, telji innrás forsetans í Úkraínu „hörmuleg“ mistök og óttist að hann grípi til kjarnorkuvopna versni staða rússneska hersins og stjórnvalda í Moskvu.
Í fréttunum kemur fram að Pútin hafni allri gagnrýni embættismanna sem vari hann við pólitískum og efnahagslegum skaða sem felist í hernaði hans. Þá óttist þeir að af þessum sökum sverfi svo að þjóðarbúskap Rússa að þeir megi sín lítils hernaðarlega með efnahaginn á brauðfótum vegna refsiaðgerða Vesturlanda.
Vísað er til tíu ónafngreindra heimildarmanna Bloomberg-fréttastofunnar sem sögðust halda að Pútin léti ekki staðar numið í stríðinu og þar með „dæmdi“ hann Rússa til áralangrar einangrunar og spennuástands í samskiptum við aðrar þjóðir.
Á sama tíma og þessi frásögn berst frá Moskvu er annars staðar birt það mat manna í Kyív að alls hafi 20.900 rússneskir hermenn fallið í stríði Pútins.
Miðvikudaginn 20. apríl ber þetta hæst í fréttum vegna stríðsins í Úkraínu:
- Rússar tilkynntu að þeir hefðu gert tilraun með nýja langdræga eldflaug, Sarmat. Pútin sagði ekkert jafnast á við flaugina og hún yrði til þess að óvinir sínir „hugsuðu sig tvisvar um“.
- Enn einn rússneski ofurstinn, Mikhail Nagamov, var felldur í orrustu um Kyív 13. apríl.
- Alexei Navalníj, andstæðingur Pútins, hvetur Frakka til að kjósa Emmanuel Macron sem forseta sunnudaginn 24. apríl og varaði þá við tengslum keppinautar hans, Marine Le Pen, við Pútin.
- Rússar létu Finna og Svía enn einu sinni heyra að það drægi dilk á eftir sér fyrir þá að ganga í NATO.
- Rússneskir hermenn hótuðu að skjóta almenna borgara í Mariupol væri þeir ekki með hvíta borða á fötum sínum – markmiðið var að ná til leyniskyttna.
- Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði 20. apríl að hann væri til þess búinn að skipta á rússneskum föngum og því fólki sem enn væri lokað inni í Mariupol.
- Rússneskir hermenn voru sakaðir um að skjóta til bana tvo dýragarðsstarfsmenn eftir að samstarfsmenn þeirra fundu lík þeirra.