Home / Fréttir / Efnahagur Rússa í rúst – ekkert bendir til endurreisnar

Efnahagur Rússa í rúst – ekkert bendir til endurreisnar

Rúblan hefur fallið um helming síðan sumarið 2014.
Rúblan hefur fallið um helming síðan sumarið 2014.

Efnahagur Rússlands versnar áfram og ekkert bendir til að Vladimír Pútín forseti geti snúið þróuninni til betri vegar.

Verg landsframleiðsla (VLF) minnkaði um 4.6% á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Samdráttarskeiðið í landinu hefur ekki verið verra síðan 2008 til 2009 þegar fjármálakreppan lamaði heimsviðskipti.

Hagfræðingar undrast ekki samdráttinn, hann sýnir engu að síður hve illa staddir Rússar eru efnahagslega. Jes Asmussen, aðalhagfræðingur Handelsbanken i Danmörku, telur Rússa hafa orðið fyrir þremur höggum.

  1. Olíuverð í frjálsu falli.

Frá upphafi árs 2014 hefur verð á tunnu af hráolíu lækkað um helming. Sala á olíu og gasi er undirstaða efnahags Rússlands og þess vegna hefur svona mikil lækkun alvarleg áhrif. Ekki er unnt að standa við opinberar fjárfestingar og stór ríkisfyrirtæki eins og Gazprom lenda í vandræðum.

Varasjóðir Rússa vegna olíusölu eru varðveittir í erlendum gjaldmiðlum og gulli. Á þá er gengið dag hvern og þeir eru meðal annars notaðir til að greiða erlendar skuldir. Unicredit segir að kassinn verði tómur við lok árs 2016.

Til að gera illt verra bendir allt til þess að verð á olíu lækki enn meira. OPEC-ríkin auka framleiðslu sína, í Bandaríkjunum vinna menn olíu þindarlaust úr sandsteini og brátt streyma milljónir lítra af íranskri olíu út á heimsmarkaðinn. Við það lækkar verðið því að framboðið er mun meira en eftirspurnin.

Verð á tunnu af Brent-olíu er undir 49 dollurum og því hið lægsta í sex ár.

  1. Refsiaðgerðir Vesturlanda

Vegna afskipta Rússa af átökunum í Úkraínu og innlimunar Krímskagans gripu vestræn ríki til víðtækra refsiaðgerða gegn Rússum og við það varð til ýmis þrýstingur innan efnahagskerfisins sem var hvort sem er veikburða.

Vegna aðgerðanna eiga Rússar ekki eins greiðan aðgang að fjármögnun víða um heim og áður auk þess sem áhrifin á útflutning eru mikil. Til að svara fyrir sig hefur Pútín tekið upp innflutningsbann a vestrænar neysluvörur. Þetta hefur dálítið styrkt heimamarkaðinn því að leitað er eftir varningi á honum til að bjóða í verslunum.

Vladimír Pútín hefur hvað eftir annað gert lítið úr áhrifum viðskiptabanns Vesturlanda á hag Rússa.

  1. Rúblan veikist

Rússneska rúblan hefur fallið mikið sem veldur því að það er mjög dýrt fyrir Rússa að kaupa innfluttan varning. Sumarið 2014 kostaði bandarískur dollari 33,3 rúblur – nú kostar hann 65 rúblur. Rússneski seðlabankinn hefur reynt að minnka höggið með því að hækka stýrivexti án þess að það beri mikinn árangur.

Við fall rúblunnar eykst verðbólga. Nú er hún um 15% í Rússlandi sem þýðir að mikið af neysluvörum hefur hækkað mjög í verði.

Það leiðir af sér miklar hörmungar í landi eins og Rússlandi þar sem 15% af íbúunum – rúmlega 33 milljónir Rússa – hafa um það bil 20.000 ísl. kr. á mánuði til að standa undir öllum útgjöldum.

„Jafnframt veldur þetta áhyggjum um framtíðina sem veldur því að Rússar hika enn frekar við að nota peningana sína,“ segir Jes Asmussen.

Honum finnst ólíklegt að efnahagsþrengingum Rússa ljúki á næstunni.

„Það eru ekki líkur á að olíuverð hækki eða að vestrænum refsiaðgerðum verði hætt. Það mun langur tími líða þar til Rússar heimta það aftur sem þeir hafa tapað,“ segir Jes Asmussen.

(Heimild: Jyllands-Posten 17. ágúst 2015)

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …