
Radoslaw Sikorski, fyrrv. utanríkis- og varnarmálaráðherra Póllands, skýrði miðvikudaginn 10. október í samtali við Zhönnu Nemtsovu, blaðakonu hjá þýsku fréttastofunni Deutsche Welle, hvers vegna hann styður eindregið þá stefnu pólsku ríkisstjórnarinnar að Bandaríkjamenn reisi herstöð í Póllandi þótt hann sé andvígur stjórnarflokknum sem kennir sig við lög og réttlæti. Andrzej Duda, forseti Póllands, lagði til í Washington á dögunum að herstöðin yrði kölluð Fort Trump, Trump-virkið.
Sikorski segir að á sínum tíma hafi hann viljað vinna með Rússum að lausn ýmissa mála og orðið nokkuð ágengt. Vladimír Pútín hafi til dæmis komið til Gdansk til að minnast þess að 70 ár voru liðin frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar og Pútín hafi orðið fyrstur rússneskra leiðtoga til að heimsækja Katýn-skóg þar sem sovéska öryggislögreglan, NKVD, drap 20.000 pólska stríðsfanga með köldu blóði.
Sikorski taldi að með þessu hefði átt að takast að koma á venjulegum samskiptum milli nágranna. Þrennt hefði þó gerst: Rússar réðust inn á Krímskaga, flugvél forseta Póllands fórst og Rússar sýndu grimmdarlega og óvirðulega framkomu við rannsókn á flaki vélarinnar. [Forsetavélin, Tu-154, fórst í aðflugi til rússnesku borgarinnar Smolensk árið 2010 með tæplega 100 manns um borð, meðal þeirra var Lech Kaczynzki Póllandsforseti].
Blaðakonan spyr hvort Sikorski teldi að núverandi stjórn Póllands væri haldin Rússaóvild. Hann svarar:
„Þegar Rússar hóta okkur með kjarnorkuvopnum hvað á okkur þá að finnast? Þegar Rússar efna til Zapad-heræfinga þar sem Pólland er kjarnorkuskotmark – það er einstaklega góð aðferð til að ýta undir og viðhalda óvild. Mér finnst áhyggjuefni að það virðast ekki nein tengsl á milli okkar núna. Við tölum saman í gegnum fjölmiðlana og öskrum hvor á annan í gegnum skráargat. Það getur verið hættulegt og stuðlað að misskilningi. Rétt er þó að hafa hugfast í þessu sambandi að hugmyndafræðilega er ekki unnt að greina á milli núverandi stjórnarflokks í Póllandi og Sameinaðs Rússlands [stjórnarflokks Rússlands].
Gott hjá þér að vekja máls á þessu. Ef þú lítur til annarra flokka í austur- og miðhluta Evrópu sérðu að popúlistarnir líkjast í raun Pútín vegna þess að þeir setja sömu gildi á oddinn. Það á ekki við um popúlistana í Póllandi.
Hafa ber í huga grundvallarmuninn: aðrir hægrisinnaðir popúlistar í Evrópu eiga ekki landamæri að Rússlandi og Rússar hernámu lönd þeirra aldrei. Rússar eru eina hugsanlega þjóðin sem getur ógnað tilvist Póllands. Við teljum þessa ógn ekki yfirvofandi en sviðsmyndir rússneskra æfinga og ummæli sumra rússneskra stjórnmálamanna eru mjög hættuleg í okkar eyrum. Já, það er svo að margir í Póllandi eru hræddir við Rússa.“
Zhanna Nemtsova rifjar upp að pólski varnarmálaráðherrann hafi boðað bandaríska herstöð í Póllandi. Á þann hátt mætti halda Rússum frá því að ráðast inn i landið. Hún spyr Sikorski hvort hann styðji þessa afstöðu. Hann svarar:
„Ég lagði mig mjög fram um að koma þessu um kring. Við viljum að í Póllandi sé herlið bandamanna okkar sem hafi fælingarmátt gagnvart Rússum en ógni þeim ekki. Það er ekki unnt að ráðast inn í Rússland með tveimur stórfylkjum. Þýski herinn, Wehrmacht, reyndi það árangurslaust með 100 herdeildum. Tvö stórfylki ógna því ekki Rússum en þau skapa Pólverjum öryggiskennd.“
Blaðakonan spyr hver yrðu hugsanleg viðbrögð Rússa hefði bandaríski herinn fasta viðveru í Póllandi. Sikorski svarar:
„Rússar sögðu sig undan samningnum um takmörkun hefðbundinna vopna í Evrópu með þeim rökum að rússnesk stjórnvöld ættu að hafa frjálsar hendur við flutning herafla síns á eigin landi. Nú ef menn eiga að geta hreyft sig eins og þeim þóknast á það einnig við um NATO.“
Heimild: DW