Home / Fréttir / Dularfullar skipaferðir Rússa fyrir Nord Stream skemmdarverkið

Dularfullar skipaferðir Rússa fyrir Nord Stream skemmdarverkið

Ýmsar kenningar hafa verið kynntar til sögunnar í leit að þeim sem sprengdi rússnesku Nord Stream I og II gasleiðslurnar á botni Eystrasalts í loft upp í september 2022. Nú hefur verið birt norræn heimildarmynd þar sem fullyrt er að rússnesk skip hafi verið á ferðinni við sprengjustaðinn skömmu áður en skemmdarverkið var unnið.

Enginn veit enn með vissu hvað gerðist og hefur því verið haldið fram að Úkraínumenn eða einhverjir af Vesturlöndum hafi staðið að verknaðinum.

Í lokaþætti heimildarmyndaflokksins, Skuggastríðs Pútins, sem norrænu ríkisútvörpin, fyrir utan RÚV, hafa sýnt undanfarið er sagt frá grunsamlegum ferðum rússneskra skipa með búnað til aðgerða neðansjávar skammt frá staðnum þar sem leiðslurnar sprungu.

Í sjónvarpsþættinum fullyrða norrænu höfundarnir ekki að Moskvuvaldið beri ábyrgð á skemmdarverkinu heldur er vakin athygli á óvenjulegum aðgerðum rússneska flotans.

Bent er á að svonefnd „draugaskip“ Rússa, þar á meðal rannsóknarskip, dráttarbátur og þriðja skip herflotans hafi verið í nokkrar klukkustundir á sprengjusvæðinu, einu sinni í næstum heilan dag.

Sagt er að slökkt hafi verið á staðsetningartækjum skipanna en útvarpsstöðvarnar segja að samt hafi mátt fylgjast með ferðum þeirra með því að hlera fjarskipti.

Fyrrverandi njósnaforingi í breska flotanum sem starfaði áður við að hlera Eystrasaltsflota Rússa hafði upp á skipunum eftir opnum upplýsingaleiðum og með því að hlera fjarskipti.

Í Moskvu hafna menn öllum ásökunum um að þeir standi að baki eyðileggingu gasleiðslnanna.

Rússar hafa sakað Breta um að „stjórna“ Nord Stream sprengingunun og þar með lokað fyrir helstu flutningsleið á rússnesku gasi til Evrópu, einkum Þýskalands. Bretar hafna þessum ásökunum og segja þær rangar.

Í heimildarmyndinni er ítarlega farið yfir ferðir rússnesku skipanna um nokkurra mánaða skeið fyrir skemmdarverkið.

Talið er að eitt skipanna, Sibirjakov, hafi búnað til að stunda eftirlit neðansjávar og senda frá sér lítil neðansjávarfarartæki.

Slökkt var á venjulegum fjarskiptabúnaði skipsins, samskiptum beint á leynilegan móttakara og tekinn óvenjulegur krókur á skipinu í júní nálægt þeim stað þar sem leiðslurnar sprungu síðar. Þetta er haft eftir ótilgreindum flotaforingja í heimildarmyndinni.

Dráttarbátur rússneska herflotans, SB-123, er sagður hafa komið á vettvang fimm dögum fyrir sprenginguna í september 2022. Af fjarskiptum skipsins er ráðið að það hafi haldið kyrru fyrir eina nótt áður en skipinu var siglt aftur til Rússlands.

Skemmdarverkið á leiðslunum var framið bæði í efnahagslögsögu Svíþjóðar og Danmerkur. Stjórnvöld beggja landa segja að um ásetningsverk hafi verið að ræða þótt þau hafi ekki kallað neinn til ábyrgðar.

Rannsókn á atvikinu stendur enn yfir í löndunum tveimur og einnig á vegum þýskra stjórnvalda.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …