Home / Fréttir / Dularfull þögn um æðsta yfirmann rússneska heraflans

Dularfull þögn um æðsta yfirmann rússneska heraflans

Valeríj Gerasimov, yfirmaður rússneska heraflans.

Tveir hæst settu foringjar rússneska heraflans í stríðinu í Úkraínu hafa ekki sést á opinberum vettvangi vikum saman.

Fyrst hvarf rússneski flotaforinginn Viktor Sokolov skömmu eftir mikla úkraínska flugskeytaárás haustið 2023. Síðan hafa birst af honum nokkrar brosandi ljósmyndir og myndskeið frá rússneskum stjórnvöldum.

Sokolov er yfirmaður rússneska Svatahafsflotans sem átti stóran þátt í innrásinni í Úkraínu.

Nú er annar enn hærra settur rússneskur herforingi horfinn úr fréttum, sjálfur yfirmaður alls rússneska heraflans, varavarnarmálaráðherra og herráðsformaðurinn Valeríj Gerasimov. Hann hvarf einnig af opinberum vettvangi eftir úkraínska flugskeytaárás.

Það var á fimmta degi ársins 2024 sem breskar Storm Shadow og franskar Scalp-stýriflaugar lentu á stjórnstöð rússneska hersins á Krím, skammt frá borginni Sebastopol. Skömmu síðar barst orðrómur um að sjálfur Gerasimov hefði verið meðal þeirra 23 sem féllu.

Í bandaríska vikuritinu Newsweek segir að síðan hafi Gerasimov, yfirmaður alls rússneska heraflans, ekki sést á lífi. Hefur frásögnin orðið til þess að endurvekja umræður um örlög æðstu herforingja Rússa.

Bent er á að Úkraínumenn hafi sagt frá í september 2023 eftir mikla árás á höfuðstöðvar rússneska Svartahafsflotans að Sokolov hafi farist þar en Rússar hafnað því á óbeinan hátt.

Skömmu síðar birtist myndskeið þar sem Sokolov var sýndur á fundi með rússneska varnarmálaráðherranum. Það varð þó ekki til að sannfæra alla um að hann væri á lífi. Síðan þá hefur hann ekki sést opinberlega.

Hvorki Úkraínumenn né Rússar hafa sagt nokkuð um Gerasimov. Hann sást síðast opinberlega 29. desember 2023 þegar hann afhenti hermönnum í Donetsk-héraði heiðursmerki. Síðan hefur ekkert af honum frést opinberlega og Newsweek segir að aldrei hafi verið til hans vitnað eða um hann talað í rússneskum miðlum þá svari rússnesk stjórnvöld ekki fyrirspurnum um hann.

Prófessor Mikhail Troitskij, Rússlandsfræðingur við Wisconsin-Madison-háskóla, segir við Newsweek að það þurfi ekki að vera neitt grunsamlegt þótt ekkert fréttist opinberlega af háttsettum herforingjum.

Þegar háð sé stríð kunni að vera skynsamlegt að halda dvalarstað helstu stjórnenda þess leyndum. Þá vilji stjórnmálamenn helst að herforingjar segi sem minnst við fjölmiðla. Hlutverk herstjórnenda sé skipuleggja og stjórna aðgerðum fjarri kastljósi fjölmiðla.

Það eru ekki allir sérfræðingar á þessu máli. Þeir vekja athygli á að skýringarlaus þögnin um Gerasimov sé undarlegri fyrir þá sök hve rússnesk yfirvöld gengu langt við að neita dauða Sokolovs. Það hafi verið réttmæt ákvörðun hjá Úkraínumönnum að granda Gerasimov, æðsta herforingja innrásarliðs og trúnaðarmanns Vladimirs Pútins. Hann hafi verið á stríðssvæði á Krím eins og Sokolov.

Hafi þeir Sokolov og Gerasimov verið drepnir bætast þeir í hóp margra yfirmanna í rússneska hernum sem farið hafa sömu leið frá upphafi stríðsins fyrir tæpum tveimur árum. Á fyrsta stigi átakanna minnti fall herforingjanna á það sem gerðist í annarri heimsstyrjöldinni. Enginn þeirra sem þá hurfu höfðu þó sömu tign og Sokolov og Gerasimov.

 

Heimild: Berlingske

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …