Home / Fréttir / Dularfull lestarferð kann að marka þáttaskil í samskiptum N-Kóreumanna og Kínverja

Dularfull lestarferð kann að marka þáttaskil í samskiptum N-Kóreumanna og Kínverja

Lestin dularfulla frá N-Kóreu.
Lestin dularfulla frá N-Kóreu.

Miklar vangaveltur eru meðal manna í Peking um að Kim Jong-un, einræðisherra í Norður-Kóreu, hafi dvalist í kínversku höfuðborginni frá síðla mánudags 26. mars til þriðjudags 27. mars. Sé svo er það fyrsta utanlandsferð Kims frá því að hann settist í æðsta embætti þjóðar sinnar árið 2011.

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki sagt neitt um málið en talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagðist ekki hafa „neinar upplýsingar á þessari stundu“ þær yrðu „birtar á sínum tíma“. Minnt er á að aldrei var sagt frá því þegar Kim Jong-il, faðir Kims Jong-uns, for til útlanda fyrr en hann var kominn heim aftur.

Kyodo, japönsk fréttastofa, varð fyrst til að segja frá því að græn járnbrautarlest með gulri láréttri rönd hefði komið að kvöldi mánudags 26. mars inn á brautarstöðina í Peking. Íbúar í borginni sögðust hafa séð „óvenjulega“ sjón í tengslum við komu lestarinnar, hertar öryggisráðstafanir og að ferðamenn hefðu verið reknir af Torgi hins himneska friðar. Það er jafnan talið til marks um að háttsettir menn sitji fund í Stóru höll alþýðunnar við torgið.

Hafi Kim Jong-un ekki verið í lestinni er talið hugsanlegt að systir hans, Kim Yo-jong, sem var fulltrúi bróður síns á vetrarólympíuleikunum í S-Kóreu hafi verið þarna á ferð eða jafnvel herforinginn Choe Ryong-hae. Bloomberg-fréttastofan vitnaði í þrjá nafnlausa heimildarmenn sem sögðu gestinn hafa verið Kim sjálfan.

Japanska fréttastofan segir að græna og gula lestin líkist lestinni sem Kim Jong-il notaði þegar hann heimsótti Kína og Rússland árið 2011. Í suður-kóreanska blaðinu Chosun Ibo var á sínum tíma sagt að alls væru 90 vagnar í brynvarinni lest sem Kim Jong-il notaði. Þar væru fundarherbergi, móttökusalur og svefnherbergi með gervihnattarsímum og sjónvarpstækjum.

Kim Jong-il átti sex einkalestir og voru reistar 20 sérstakar lestarstöðvar í N-Kóreu aðens fyrir hann. Þegar hann fór í lestarferð þvert yfir Rússland lét hann fljúga með lifandi humar til sín dag hvern í lestina. Kim Jong-il og faðir hans Kim Il-sung kusu jafnan að ferðast með lestum en ekki flugvélum þegar þeir fóru til Kína og Rússlands. Sagt er að þeir hafi verið lofthræddir. Kim Jong-un ferðaðist stundum með flugvél áður en hann tók við stjórn landsins.

Hafi Kim Jong-un verið í Peking kann það að marka þáttaskil í samskiptum Kínverja og N-Kóreumanna sem hafa verið stirð undanfarin misseri. Til þessa hefur Kim jafnan hafnað boði Kínverja um að hitta þá í Peking. Það slóst alvarlega upp á vinskapinn í fyrra vegna tilrauna N-Kóreumanna með kjarnorkuvopn og eldflaugar. Þessar tilraunir voru meðal annars gerðar á dögum sem kínverskir ráðamenn töldu mikilvæga fyrir sig og var jafnvel litið á þær sem hótun eða ögrun. Auk þess hefur Kim Jong-un gripið til ýmissa róttækra aðgerða sem miða að því að minnka áhrif Kínverja innan stjórnar sinnar. Má þar nefna aftöku frænda hans, Jangs Song-thaeks, sem lagði sig fram um náin tengsl við Kínverja og morðið á hálfbróður Kims, Kim Jong-nam í fyrra á flugvellinum í Kuala Lumpur í Malasíu. Hann lagði einnig rækt við Kínverja og bjó í Kína.

Fyrir rúmum tveimur vikum tilkynnti Donald Trump Bandaríkjaforseti að hann ætlaði að hitta Kim Jong-un. S-Kóreumenn höfðu milligöngu vegna fundarins. Kínverjumn stóð ekki á sama um að Kim Jong-un ætlaði upp á sitt eindæmi að ráðgast beint við forseta Bandaríkjanna um kjarnorkuvopn í hlaðinu hjá Kínverjum. Þeir vilja koma sínum sjónarmiðum að við N-Kóreumenn fyrir fundinn.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …