Home / Fréttir / Drónar og efnavopn Daesh kunna að ógna öryggi Evrópumanna

Drónar og efnavopn Daesh kunna að ógna öryggi Evrópumanna

Liðsmaður al-Kaída heldur á dróna sem hann segist hafa náð frá Daesh.
Liðsmaður al-Kaída heldur á dróna sem hann segist hafa náð frá Daesh.

Hryðjuverkasamtökin Daesh (Ríki íslams) hafa beitt efnavopnum og sprengjudrónum á vígvellinum í Írak og Sýrlandi. Nú óttast eftirgrennslanastofnanir, sérfræðingar og Europol (Evrópulögreglan} að samtökin muni nota þessar aðferðir til árása á Vesturlöndum og beita þar efnavopnum, geislavirkum efnum og sýklavopnum., segir í Jyllands-Posten sunnudaginn 25. desember.

Í blaðinu er vitnað til Lars Findsens, forstjóra Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), eftirgrennslanaþjónustu danska hersins sem stundar njósnir utan Danmerkur og gefur árlega úr hættumatsskýrslu. Findsen segir ríka ástæðu til að hafa af því áhyggjur að Daesh beiti sömu aðferðum á Vesturlöndum og í stríðinu í Írak og Sýrlandi.

Í nýrri skýrslu frá Europol er einnig varað við hættunni af efna- og sýklavopna árás. Þar er bent á að Daesh hafi beitt sinneps- og klórgasi. Í röðum samtakanna séu menn „sem hafi áður verið þátttakendur í vígbúnaði Íraka“.

Þá segir í skýrslum að margt bendi til að Daesh hafi komið höndum yfir geislavik efni á sjúkrahúsum og rannsóknastofum. Auk þess hafi samtökin gert tilraun með geislavirkar sprengjur.

Bretar hafa áhyggjur af því að Daesh kunni að beita drónum til árása. Í október varð dróni frá Daesh hlaðinn sprengiefni tveimur hermönnum að bana í Írak. Í Jyllands-Posten er vitnað í Lars Findsen, forstjóra FE, sem segir:

„Við höfum fylgst með því hvernig Daesh beitir drónum á vígvellinum og séð hvernig þeir hafa sífellt náð betri árangri. Á því er enginn vafi að hugsanlega kann reynslan sem Daesh hefur aflað sér þar að verða nýtt annars staðar.“

Forstjórinn lætur þess jafnframt getið að enn hafi ekki sést að Daesh beiti geislavirkum eða sýkla efnum.

Cindy Vestergaard og Miles Popmper, sérfræðingar í geislavirkum vopnum við hugveitu í Washington, telja auðvelt fyrir Daesh að nálgast efni til að gera geislavirka sprengju. Efnið sé unnt að kaupa á svörtum smyglaramarkaði auk þess sem efnið finnist til dæmis í sjúkrahúsum, háskólum og á olíuvinnslusvæðum.

Kristian Søby Kristensen, sérfræðingur við Center for Militære Studier við Københavns Universitet, telur hættu á að hryðjuverkahópar hafi náð í efnavopn eða annað efni í stríðsupplausninni í Sýrlandi.

Hvað sem þessu hættumati líður telja sérfræðingar og FE-forstjórinn meiri hættu á hryðjuverki með venjulegum vopnum eða vöruflutningabíl eins og varð 19. desember í Berlín. Lars Findsen segir að mörg erfið verkefni blasi við eftirgrennslanastofnunum. Það sé nauðsynlegt að fylgjast með smygli á úraníum og gjöreyðingarvopnum á sama tíma og leitast sé við að verjast ráni á vöruflutningabílum eða árásum hnífamanns.

Heimild: Jyllands-Posten

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …