Home / Fréttir / Drónaárásir valda tjóni í Moskvu og á Krímskaga

Drónaárásir valda tjóni í Moskvu og á Krímskaga

 

Myndin er frá Moskvu mánudaginn 24. júlí 2023 og sýnir skaðann eftir drónaárás á turnbyggingu í borginni.

Úkraínumenn gerðu drónaárás á Moskvu snemma að morgni mánudagsins 24. júlí. Meðal skotmarka þeirra var bygging rússneska varnarmálaráðuneytisins sem talin er vera aðsetur alræmdrar miðstöðvar netárásaliðs hersins.

Engar fréttir hafa borist um slys á mönnum vegna árásanna en að ráðist skyldi á byggingu á vegum hersins er lýst sem fyrirboða þess sem kunni að vera í vændum í átökunum milli Rússa og Úkraínumanna. Dróni virðist hafa lent á þaki herbúða sem reistar voru á 19. öld og eru í suðvesturhluta rússnesku höfuðborgarinnar.

Mannvirkin eru almennt talin hýsa hljómsveit hersins en eru þó frægari sem heimili Einingar 26165 í njósnadeild hersins, GRU. Deildin er talin standa að baki fjölmargra net- og tölvuárása sem hafa verið gerðar á undanförnum árum.

Sergei Sobjanin, borgarstjóri Moskvu, sagði að tvær skrifstofubyggingar hefðu einnig orðið fyrir árásum án þess að „alvarlegur skaði“ hefði orðið. Myndir sýndu að turnbygging hefði verið eyðilögð. Óljóst er hvers vegna ráðist var á skrifstofubyggingarnar.

Þá var skýrt frá því að þriðji dróninn hefði lent í kirkjugarði í útjaðri Moskvu.

Drónar hafa ekki vakið jafnmikla athygli í Moskvu síðan í maí 2023 þegar tveimur drónum var grandað yfir Kremlarkastala.

Mykhailo Fedorov, varaforsætisráðherra Úkraínu, fór niðrandi orðum um Rússa þegar hann skýrði frá drónaárásunum á Moskvu og skotmörk á Krímskaga. Hann sagði að með veikum rafeinda- og loftvörnum ættu Rússar í æ meiri vandræðum með að verjast loftárásum. Fleiri árásir yrðu gerðar í framtíðinni.

Rússar sögðu að Úkraínumenn hefðu gert „hryðjuverkaárás“ á Moskvu.

Dmitry Medvedev, fyrrverandi Rússlandsforseti og varaformaður öryggisráðs Rússlands, sagði að Rússar yrðu að svara fyrir sig með árásum á ný skotmörk og þau ættu mörg eftir að koma á óvart.

Netárásamiðstöð GRU er til húsa skammt frá rússneska varnarmálaráðuneytinu. Talið er að innan miðstöðvarinnar starfi nokkrir hópar tölvuþrjóta, þar á meðal einn sem er þekktur undir nafninu Fancy Bear og hefur komið við sögu í netárásum að opinberu undirlagi. Má þar nefna árásir á höfuðstöðvar bandaríska Demókrataflokksins, þjóðþing ýmissa NATO-ríkja og Emmanuel Macron Rússlandsforseta.

Aðfaranótt mánudagsins 24. júlí skutu Úkraínumenn 17 drónum að skotmörkum á Krímskaga að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins. Í frásögn þess kom einnig fram að drónunum hefði verið grandað með rússneskum loftvarnakerfum og gripið yrði til „harðra hefndaraðgerða“.

Landstjóri Krím í nafni Rússa sagði hins vegar að skotfærageymsla hefði orðið fyrir árás og íbúðahús hefði eyðilagst að hluta.

 

Heimild: The Telegraph

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …