Home / Fréttir / Drónaárás gerð á Moskvu

Drónaárás gerð á Moskvu

Sagt er að dróni hafi farið inn um glugga á 14. hæð í þessu húsi í Moskvu.

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist sem árásinni hafi verið beint að hverfum borgarinnar þar sem íbúar mega sín betur efnalega en allur þorri borgarbúa. Þá eru einnig embættismannabústaði í hverfunum og heimili rússneskra auðmanna, segir á ensku vefsíðunni The Telegraph.

Tvær íbúðabyggingar í suðvesturhluta Moskvu fengu á sig dróna. Íbúar sögðu við RIA Novosti fréttastofuna að dróni hafi lent inni á 14. hæð byggingar án þess að springa.

Sagt er að nokkrir drónar hafi verið skotnir niður nálægt Rubljiovskoje shosse, gatan er gjarnan kölluð gullna míla Moskvu, þar eru embættisbústaður Vladimírs Pútins Rússlandsforseta og heimili fjölmargra rússneskra auðmanna og háttsettra embættismanna.

Talið er að þrír drónar að minnsta kosti hafi smogið í gegnum loftvarnakerfi Moskvu og yfir umferðaræðina sem skilur á milli borgarinnar og dreifðra útborga hennar. Þetta gerðist í hverfum betri borgara, fjarri öllum hernaðarlega mikilvægum skotmörkum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sakar Úkraínumenn um að hafa gert „hryðjuverkaárás“ á Moskvu sem er í 470 km frá landamærum Úkraínu en í um 700 km fjarlægð hefði drónunum verið skotið frá Úkraínu. Segja blaðamenn í Kyív að drónarnir sem sendir voru til Moskvu hafi verið of litlir til að geta  komið frá Úkraínu. Stjórnvöld í Kyív neita allri aðild að árásinni.

Jevgeníj Prigósjín, leiðtogi Wagner-málaliðanna, fór ekki leynt með skömm sína á rússneska varnarmálaráðuneytinu að morgni þriðjudags 30. maí þegar hann fjallaði um drónaárásina. Hann sagði á myndskeiði sem birtist á samfélagssíðunni Telegram:

„Þið eruð varnarmálaráðuneytið. Þið voruð ekki við neinu búnir. Hvers vegna í fjandanum leyfðuð þið þessum drónum að komast til Moskvu? Þeir flugu yfir Rubljovka í áttina að húsum ykkar – látið hús ykkar verða eldtungum að bráð! Og hvað gerir venjulegir borgarar þegar drónar með sprengjum lenda á gluggum þeirra?“

Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði að Vladimir Pútin væri við störf í Kremlarkastala og honum hefði verið gerð grein fyrir drónaárásinni á borgina.

Peskov sagði að vel hefði verið staðið að loftvörnum Moskvu undir góðri forystu varnarmálaráðuneytisins og Pútin hefði ekkert um málið að segja.

RIA-Novosti fréttastofan hafði eftir Peskov að árásin væri talin „svar“ við „áhrifamiklum árásum“ á eina af „stjórnstöðvum“ Úkraínu sunnudaginn 28. maí.

Alexander Khinstein, þingmaður úr flokki Pútins, sagði á Telegram að drónaárásina yrði að viðurkenna sem „nýjan veruleika“. Örugglega mundi „skemmdar- og hryðjuverkum frá Úkraínu fjölga“. Þess vegna væri nauðsynlegt að efla varnar- og öryggisráðstafanir, þar á meðal gegn drónum.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …