Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War (ISW), Stofnun til stríðsrannsókna, telur að drónaárásin á Kremlarkastala sem Rússar sögðu frá miðvikudaginn 3. maí hafi „líklega verið sett á svið“ til að búa í haginn fyrir nýtt herútkall rússneskra stjórnvalda.
ISW fullyrðir að Rússar hafi sjálfir staðið á bak við atvikið, með því hafi verið ætlunin að „að sýna rússneskum áhorfendum nálægð stríðsins og skapa aðstæður til að virkja þjóðina frekar“.
„Ýmsar vísbendingar eru um að árásin hafi verið heimagerð og í ákveðnum tilgangi,“ segir ISW í atvikslýsingu sem birtist fimmtudaginn 4. maí.
Myndskeiði var dreift á samfélagsmiðlum og á því virðist dróni springa nálægt fánastöng á höll öldungadeildar rússneska þingsins í Kremlarkastala að kvöldi þriðjudags 2. maí, einnig sjást tveir ónafngreindir einstaklingar á leið upp á topp byggingarinnar.
Vladimir Pútin Rússlandsforseti var ekki í kastalanum þegar árásin var gerð.
Í fyrstu tilkynningu Kremlverja var fullyrt að Úkraínumenn hefðu gert tilraun til að drepa Pútin og var hótað hefndum fyrir þessa „hryðjuverkaárás“.
Fimmtudaginn 4. maí beindu Kremlverjar hins vegar spjótum sínum að Bandaríkjamönnum og sögðu að varnarmálaráðuneyti þeirra hefði hannað árásina – ekki voru þó lagðar fram neinar sannanir því til stuðnings.
Dmitríj Peskov, blaðafulltrúi Kremlverja, sagði að ráðamenn í Kyív og Washington reyndu á fáránlegan hátt að skjóta sér undan ábyrgð á árásinni. Ákvarðanir af þessum toga væru þó ekki teknar í Kyív heldur Washington. Í Kyív færu menn aðeins að fyrirmælum.
„Í Washington hljóta menn að skilja að við vitum þetta,“ sagði Peskov.
Frá Hvíta húsinu í Washington barst það svar að þetta væri „lygi“ Kremlverja.
ISW sagði í greiningu sinni á atvikinu að Rússar hefðu nýlega aukið eigin loftvarnir þar á meðal í Moskvu.
„Það er þess vegna mjög ólíklegt að tveir drónar hafi komist í gegnum marghólfaðar loftvarnir og sprungið eða verið skotnir niður beint yfir miðpunkti Kremlarkastala á þann hátt að til varð mikið sjónarspil á besta stað fyrir framan myndavél,“ sagði ISW.
Skoða einnig
Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui
Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …