Home / Fréttir / Dregur til úrslita um NATO-ákvarðanir Finna og Svía

Dregur til úrslita um NATO-ákvarðanir Finna og Svía

Bandaríkjastjórn er fullviss um að hún geti brugðist við óskum Finna og Svía um öryggistryggingu á þeim tíma sem líður frá því að þeir sækja um aðild að NATO þar til umsókn þeirra er samþykkt af öllum aðildarríkjunum 30. Talsmaður Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í Washington skýrði frá þessu fimmtudaginn 5. maí.

Fram hefur komið að meðal Svía og Finna telja sumir að þjóðirnar yrðu í sérstakri hættu fyrir yfirgangi Rússa á þeim tíma sem umsókn þeirra um NATO-aðild er til meðferðar í þjóðþingum aðildarlandanna.

Enginn getur með vissu sagt hve langan tíma einstök þing þurfa til að afgreiða málið. Í ferli sem þessu þar sem mikið er í húfi og tími naumur kann að koma til þess að í einhverju þinganna heyrist raddir með kröfum um að annað mál fái afgreiðslu á undan eða samhliða NATO-aðildarmálinu. „Gíslataka“ af því tagi er ekki vel séð af neinum nema þeim sem fyrir henni standa. Öll aðildarríki NATO verða að samþykkja stækkun bandalagsins.

„Við erum fullvissir um að við getum fundið leiðir til að koma til móts við hagsmuni beggja ríkja sæki að stjórnendum þeirra áhyggjur vegna tímans sem líður frá því að umsóknin um NATO-aðild er lögð fram þar til formlegrar aðildar kemur,“ sagði Jen Psaki, blaðafulltrúi Hvíta hússins, á fréttamannafundi.

Ann Linde, utanríkisráðherra Svía, hitti Antony Blinken, bandarískan starfsbróður sinn, miðvikudaginn 4. maí. Að samtali þeirra loknu sagðist hún hafa fengið öryggistryggingu en lýsti henni ekki nánar.

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svía, sagði í apríl að framlagning aðildarumsóknar kynni að kalla fram alls konar viðbrögð Rússa, þar á meðal net- og fjölþátta árásir, til dæmis áróðursherferð til að grafa undan sænsku öryggi.

Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finna, sagði laugardaginn 7. maí í samtali við Helsingin Sanomat að Finnar nytu nægilegrar öryggistryggingar á umsóknartímanum, kæmi til NATO-aðildarumsóknar. Hann sagði að tryggingin yrði sú besta sem fá mætti án þess að njóta skjóls af 5. grein Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki væri árás á þau öll.

Jafnaðarmenn taka ákvarðanir

Flokksstjórn sænskra jafnaðarmanna kemur saman til aukafundar um NATO sunnudaginn 15. maí. Tobias Baudin, framkvæmdastjóri flokksins, sagði laugardaginn 7. maí að hugsanlega yrði tekin afstaða til aðildar á fundinum. Áður var stefnt að því að ákvörðunin yrði tekin 24. maí. Sú dagsetning var valin með hliðsjón af umræðum um NATO-málið í öllum flokksdeildum og félögum sem skal lokið 12. maí. Nú hefur sem sagt verið ákveðið að flokksstjórnin ræði málið 15. maí og kann ákvörðun flokksins að verða tekin þá.

Finnskir jafnaðarmenn hafa sagt að þeir ætli að taka ákvörðun sína laugardaginn 14. maí.

Jafnaðarmannaflokkarnir í Finnlandi og Svíþjóð eru nú burðarflokkar í ríkisstjórnum landanna og sitja þar í forsæti.

Finnskir vinstrisinnar klofnir

Hanna Sarkkinen, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finna, úr Vinstrabandalaginu, skýrði frá því í vikunni að hún styddi aðild Finna að NATO. Öryggisumhverfið í Evrópu hefði tekið stakkaskiptum og kostir NATO-aðildar væru meiri en ókostirnir.

Þetta sætti tíðindum vegna þess að Vinstrabandalagið hefur jafnan staðið fastast allra finnskra flokka gegn aðild að NATO og setti það sem skilyrði við þátttöku í ríkisstjórninni undir stjórn jafnaðarmanna fyrir þremur árum að landið gengi ekki í neitt hernaðarbandalag.

Í dag, laugardaginn 7. maí, fjallar flokksráð Vinstrabandalagsins um hvort ákvörðun um aðildarumsókn verði til þess að flokkurinn gangi úr ríkisstjórninni. Níu af 16 þingmönnum flokksins hafa opinberlega lýst andstöðu við NATO-aðild Finnlands.

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …