Home / Fréttir / Dönsk rannsókn: Mannréttindadómstólinn er unnt að beita pólitískum þrýstingi

Dönsk rannsókn: Mannréttindadómstólinn er unnt að beita pólitískum þrýstingi

 

Frá mannréttindadómstólnum í Strassborg.
Frá mannréttindadómstólnum í Strassborg.

Hér hefur verið vakið máls á því að háværar kröfur eru í Danmörku um að sagt verði skilið við Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg takist ekki að breyta mannréttindasáttmála Evrópu á þann veg ríkjum verði heimilað að gera erlenda glæpamenn brottræka.

Í maí 2016 komst danski hæstirétturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að vísa manni að nafni Gimi Levakovic, sem þekktur var sem „sígaunabossinn“ úr landi þrátt fyrir afbrotaferil, alþjóðaskuldbindingar danska ríkisins bönnuðu það. Dómurinn vakti reiði á danska þinginu.

Danir taka við formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins í Strassborg í nóvember og ríkisstjórn þeirra hefur í hyggju að fylgja þar eftir reiði danskra stjórnmálamanna í stað mannréttindadómstólsins.

Í Jyllands Posten fimmtudaginn 28. september birtist frétt um að ef til vill sé óþarft fyrir dönsku ríkisstjórnina að láta til skarar skríða gegn dómurunum 47 í Strassborg. Þess megi sjá merki að þeir sjái að sér þegar um brottvísun á glæpamönnum sé að ræða.

Vitnað er í greinargerð frá hugveitunni Justitia þar sem birt er úttekt á dómum í Strassborg frá árinu 2007 um brottvísun afbrotamanna. Jacob Mchangama forstjóri segir að á undanförnum árum hafi dómstóllinn í vaxandi mæli fallist á réttmæti þess að brottvísa afbrotamönnum.

Hann segir ýmislegt benda til þess að pólitískur þrýstingur á dómarana undanfarin ár hafi haft sín áhrif og þeir veiti nú stjórnvöldum einstakra ríkja meira svigrúm en áður til að ráða sjálf í þessum málum sé sýnt fram á að við ákvarðanir sé hugað gaumgæfilega að ákvæðum mannréttindasáttmálans.

Mikael Rask Madsen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og forstöðumaður Center for Internationale Domstole (iCourts), kemst að svipaðri niðurstöðu. Dómararnir hafi tekið mið af gagnrýni sem borist hafi frá fleirum en Dönum.

Mannréttindadómstóllinn notar „skapandi lögskýringaraðferð“ sem felur í sér að hann túlkar mannréttindasáttmálann út frá því hvernig hann horfir við dómurunum á líðandi stundu frekar en eftir orðanna hljóðan. Margir danskir stjórnmálamenn hafa harðlega gagnrýnt þetta og segja að með þessu taki dómararnir sér óhóflegt vald.

Árið 2012 gagnrýndu 47 aðildarríkisstjórnir Evrópuráðsins að dómstóllinn gengi of langt í afstöðu sinni. Mikael Rask Madsen segir rannsóknir sínar sýna að eftir þetta hafi dómstóllinn veitt dómstólum í aðildarlöndunum meira svigrúm, einkum að því er varðar 8. grein mannréttindasáttmálans um rétt sérhvers manns til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.

„Við sjáum greinilega breytingu. Dómstóllinn hlustar á gagnrýni – einkum komi hún frá svonefndum ábyrgum löndum á sviði mannréttindamála eins og Danmörku og Bretlandi,“ segir prófessorinn.

Nú í september staðfesti dómstóllinn til dæmis breskan brottvísunardóm þar sem erlendum ríkisborgara sem hafði hlotið dóm fyrir ofbeldi, rán og fíkniefnaeign var vísað úr landi þó hann hefði átt heima í Bretlandi frá því að hann var tveggja ára.

„Þegar allra nýjustu dómar eru lesnir er augljóst að svigrúmið til brottvísunar er meira en áður hefur sést í svipuðum málum,“ segir Mikael Rask Madsen.

Hann segir að erfitt sé að sjá hve langt dómararnir í Strassborg hafi gengið en þó sé líklegt að nú kynnu þeir að hafa staðfest dóm danska hæstaréttarins frá maí 2016 um brottvísunina á „sígaunabossinum“ Levakovic þar sem matið snerist um afbrot hans annars vegar og langvinn og sterk tengsl hans við Danmörku.

Íhaldsmaðurinn Søren Pape Poulsen, dómsmálaráðherra Dana, fagnar niðurstöðu sérfræðinganna og segir að þær styðji áform dönsku stjórnarinnar um að nýta formennsku sína í ráðherraráði Evrópuráðsins til að draga úr frjálslegri lagatúlkun dómaranna.

Danska stjórnin telur að „skapandi lögskýringaraðferð“ dómaranna í Strassborg hafi víkkað gildi alþjóðasamninga sem Danir gerðust aðilar að árið 1950. Pape segir að markmið ríkisstjórnarinnar sé að fá stuðning hinna ríkjanna 46 við „Kaupmannahafnaryfirlýsingu“ um „markvissa umbótatillögu“.

„Í grunninn snýst þetta um að skapa nokkur úrræði svo að aðildarríkin geti sameinast um að hafa áhrif á þróunina þegar þeim finnst túlkun mannréttindadómstólsins fjarri lagi,“ segir dómsmálaráðherrann.

Preben Bang Henriksen sem er talsmaður stjórnarflokksins Venstre (mið-hægri] í réttarfarsmálum segir að ekki megi dragast að taka á málum vegna mannréttindadómstólsins.

„Hér er um stórkostlegt lýðræðislegt vandamál að ræða. Þegar ég fer á fundi með kjósendum eða í fjölskylduboð er alltaf minnst á eitt mál. Þar er ekki um að ræða afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa málsins eða hins, heldur er það Levakovic-málið,“ segir Henriksen þingmaður.

Mikael Rask Madsen telur að við ríkisstjórninni blasi erfitt en ekki óvinnandi mál.

„Það er erfitt að ætla sér að breyta sjálfum sáttmálunum en unnt er að beita pólitískum þrýstingi og rannsóknir sýna að dómstóllinn hlustar.“

Heimild: Jyllands-Posten

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …