Home / Fréttir / Donald Trump vill banna komu múslima til Bandaríkjanna

Donald Trump vill banna komu múslima til Bandaríkjanna

 

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump, frambjóðandi í prófkjöri repúblíkana vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember 2016, sætir ámæli eigin flokksbræðra og annarra fyrir þau ummæli sín mánudaginn 8. desember að banna ætti múslímum að koma til Bandaríkjanna.

Trump sagði að margir múslímar „hötuðu“ Bandaríkin. Þá ætti að banna „þar til ráðamenn landsins hafa áttað sig á hvað er á seyði“. Kosningastjóri Trumps sagði að þetta mundi ná til „allra“ – þeirra sem vildu flytjast til Bandaríkjanna og ferðamanna. Sjálfur sagði Trump við Fox News að þetta mundi ekki „ná til fólks sem býr í Bandaríkjunum“. Múslimar í Bandaríkjaher mundu „koma heim“.

Ummæli Trumps féllu þegar Bandaríkjamenn takast á við afleiðingar versta hryðjuverks innan eigin landamæra frá 9/11 árið 2001 sem tengist múslimum. Í fyrri viku drápu hjón sem talið er að hafi snúist til öfgahyggju 14 manns í bænum San Bernardino í Kaliforníu.

Meðal repúblíkana brugðust menn harkalega við orðum Trumps. Jeb Bush, keppinautur hans í prófkjörinu, sagði Trump „ruglaðan“. Dick Cheney, fyrrv. varaforseti, sagði ummælin „stangast á við allt sem er okkur kært“.

Frá forsetaembættinu bárust þau viðbrögð að boðskapurinn stangaðist á við bandarísk gildi og öryggishagsmuni þjóðarinnar.

„Donald Trump líkist frekar foringja aftökuskríls en stórþjóðar eins og okkar,“ sagði Nihad Awad, framkvæmdastjóri samskiptaráðs múslima.

Að morgni þriðjudags 8. desember varði Trump ummæli sín í morgunþætti á CNN – hann vildi tímabundið bann sem væri nauðsynlegt ef koma ætti í veg fyrir margar fleiri 9/11 árásir.

Afstaða Trumps sætir ekki gagnrýni alls staðar – honum var vel fagnað á fundi í Suður-Karólínu þegar hann ítrekaði fyrirheit sitt um bann skömmu eftir upphaflegu yfirlýsinguna.

Anthony Zurcher, fréttaritari BBC í Washington, minnir á að róttæk ummæli Trumps hafi aukið fylgi hans til þessa og nú hafi hann dregið víglínu sem aðrir prófkjörsframbjóðendur verði að virða eða sæta reiði hans og árásum.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, lýsti áhyggjum yfir málflutningi Trumps og sagði hann geta skaðað „ótrúlega mikilvæga“ áætlun um framtíðarbústað fyrir sýrlenska flóttamenn sem ættu undir högg að sækja.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …