
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, hélt fyrsta blaðamannafund sinn í tæpa sex mánuði miðvikudaginn 11. janúar. Hann sagðist telja að Rússar hefðu staðið að baki tölvuárásum í tengslum við bandarísku forsetakosningarnar. Hann sagði að hann mundu „alfarið“ fela sonum sínum fyrirtæki sín og viðskipti.
Þegar Trump var spurður um njósnahneyksli tengd Rússum sagðist hann telja það Bandaríkjunum til framdráttar nyti hann velvildar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
„Líki Pútín vel við Trump tel ég það til bóta en ekki til skaða vegna þess að nú er samband okkar við Rússa hryllilegt,“ sagði Trump.
Hann viðurkenndi einnig að hann teldi Rússa hafa staðið að kosninga-tölvuárásunum í Bandaríkjunum en annarra þjóða menn hefðu einnig gerst sekir um slíkt sama.
Trump taldi „óviðurkvæmilegt“ að öryggis- og njósnastofnanir Bandaríkjanna hefðu heimilað birtingu á óstaðfestri skýrslu um að Rússar hefðu safnað upplýsingum um Trump í því skyni að geta beitt hann nauðung. Hann gaf einnig til kynna að stofnanirnar hefðu sjálfar lekið þessum óstaðfestu upplýsingum um Rússa og líkti reynslunni við það sem gerðist í „Þýskalandi nazista“ en svipuð orð hafði hann áður látið falla á Twitter.
Á blaðamannafundinum gaf Trump yfirlýsingu um að hann hefði „alfarið fært stjórn“ fyrirtækis síns til tveggja fullorðinna sona sinna Donalds Trumps yngra og Erics Trumps.
Eignir Trumps verða settar í sjóð og fyrirtækið mun ekki gera neina samninga við erlenda aðila á meðan Trump gegnir embætti, sagði Sheri Dillon, lögfræðingur sem unnið hefur að því að breyta fyrirtækjum Trumps á þennan hátt.
Fyrirtækið heldur áfram að gera samninga innan Bandaríkjanna. Það gengur í berhögg við það sem Trump sagði á Twitter í desember með orðunum „engir nýir samningar“ á meðan hann væri í Hvíta húsinu.
Miðvikudaginn 11. janúar vísaði CNN-sjónvarpsstöðin í óstaðfesta skýrslu sem síðar var birt á vefsíðunni BuzzFeed. Þessi skýrsla skyggði á allt annað á blaðamannafundinum sem einkum var ætlað að gefa Trump tækifæri til að skýra frá tilhögun á eignarhaldi og rekstri fyrirtækja hans á meðan hann sæti í Hvíta húsinu sem forseti.
Um er að ræða 35 bls. skjal þar sem fullyrt er að Rússar hafi með leynd safnað upplýsingum um Trump og þar séu nokkur óstaðfest atvik nefnd til sögunnar. Þau snerti meða annars kynferðisleg og fjárhagsleg umsvif Trumps í Rússlandi auk þess sem sagt er að fulltrúar Trumps hafi átt fundi með Rússum í forsetakosningabaráttunni.
Fyrir blaðamannafundinn notaði Trump Twitter til að hafna því sem haldið er fram í þessari skýrslu. Hann sagði um „gervifréttir“ að ræða og líkti þessu við það sem gerst hefði í „Þýskalandi nazista“. „Njósnastofnanir hefðu aldrei átt að leyfa þessum gervifréttum að „leka“ til almennings,“ sagði Trump á Twitter.
Rússar neita því að hafa safnað með leynd upplýsingum til að koma höggi á Trump um sé að ræða „uppspuna frá rótum“. Talsmaður ráðamanna í Kreml sagði einnig að Rússar ættu engar niðurlægjandi upplýsingar um Trump eða Hillary Clinton, fyrrverandi keppinaut hans.
Heimild: dw.de