Home / Fréttir / Donald Trump ráðalaus gagnvart ögrunum N-Kóreumanna

Donald Trump ráðalaus gagnvart ögrunum N-Kóreumanna

Kim Jong-un harðstjóri fylgist með eldflaugarskoti sínu.
Kim Jong-un harðstjóri fylgist með eldflaugarskoti sínu.

Í Bandaríkjunum rifja menn nú upp að Donald Trump sagði á Twitter snemma í janúar 2017, eftir að hann var kjörinn forseti, að Norður-Kóreumenn mundu ekki gera tilraun með langdræga eldflaug sem næði frá landi þeirra til Bandaríkjanna. Jafnframt er sagt að þá hafi hann hvorki vitað hve litlu munaði að Kim Jong-un einræðisherra næði þessu markmiði sínu né hve fá úrræði Bandaríkjaforseti hefði til að stöðva hann. Forsetinn hafi í raun engin ráð andspænis þessum ögrunum.

Nú hefur Bandaríkjastjórn staðfest að Norður-Kóreumenn gerðu tilraun með langdræga eldflaug þriðjudaginn 4. júlí. Þeir ættu nú eldflaug sem næði að minnsta kosti til Alaska. Ekki er langt undan að flaug verði send á loft frá N-Kóreu sem dregur til annarra hluta Bandaríkjanna en Alaska. Á hinn bóginn er enn talið að nokkur ár líði þar til þeir hafi burði til að setja kjarnaodd á slíka eldflaug.

William J. Perry, fyrrv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði nýlega að geta N-Kóreumanna til að ná til Bandaríkjanna „breytti öllum útreikningum“. Bandaríkjamenn óttast ekki að Kim Jong-un geri forvarnarárás á vesturströnd Bandaríkjanna, það jafngilti sjálfsmorði.  Að Kim hafi getu til að svara árás á þennan hátt breytir öllum áætlunum Bandaríkjamanna um hvernig haga skuli varnarsamstarfi þeirra við bandamenn sína í þessum heimshluta.

Norður-Kóreumenn sendu flaug sína á loft sama dag og Bandaríkjamenn fögnuðu þjóðhátíðardegi sínum. Haft var eftir Kim Jong-un í n-kóreska ríkisútvarpinu að færa þyrftu „bandarísku skúrkunum“ fleiri „gjafir“. Þá var sagt að Kim hefði „lagt áherslu á að langvinn barátta gegn bandarísku heimsvaldasinnunum væri komin á lokastig og tímabært væri fyrir DPRK [Norður-Kóreu] að sýna Bandaríkjamönnum baráttuhug sinn með því að láta reyna á viljastyrk þeirra í andstöðu við viðvaranir“.

Leiðtogar 20 helstu iðnríkja heim hittast um helgina í Hamborg. Á leið sinni þangað hefur forseti Kína heimsótt Moskvu og Berlín en Donald Trump fer til Póllands og hittir þar leiðtoga NATO-ríkja í austurhluta Evrópu.

Hvarvetna ber vopnaglamur N-Kóreumanna hátt í viðræðum um þróun alþjóðamála. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kom saman miðvikudaginn 5. júlí til að ræða aðgerðir gegn N-Kóreumönnum. Þær hafa dugað skammt til þessa.

Donald Trump hefur hvað eftir annað skorað á kínversk stjórnvöld að þrýsta á ráðamenn í N-Kóreu og fá þá til að halda aftur af sér í vígbúnaði. Til þessa hafa þær hvatningar skilað litlu og undanfarna daga hefur spenna magnast milli herja Kína og Bandaríkjanna á S-Kínahafi. Bandaríkjamenn viðurkenna ekki ráð Kínverja yfir hafsvæðum sem þeir hafa lagt undir sig þar, meðal annars með gervieyjum.

Nýlega sökuðu Kínverjar bandaríska flotann um að ögra sér og fullveldi sínu á S-Kínahafi með því að senda skip inn á svæði sem Kínverjar segjast hafa lokað fyrir skipum annarra landa.

Skoða einnig

Macron skipar nýjan forsætisráðherra fyrir þingkosningar

Elisabeth Borne (61 árs) var skipuð forsætisráðherra Frakklands mánudaginn 16. maí. Er hún önnur konan …