Home / Fréttir / Donald Trump og Kim Jong-un hittast í Singapúr 12. júní

Donald Trump og Kim Jong-un hittast í Singapúr 12. júní

Kim Jong-un og Donald Trump
Kim Jong-un og Donald Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti fimmtudaginn 10. maí að hann mundi hitta Kim Jong-un, einræðisherra N-Kóreu, í Singapúr þriðjudaginn 12. júní. Trump sagði á Twitter að þeir mundu báðir „reyna að gera þetta að mjög sérstöku andartaki í þágu heimsfriðar!“

Þetta verður í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna hittir leiðtoga N-Kóreu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom frá N-Kóreu aðfaranótt 10. maí. Hann hitti þar Kim Jong-un og einnig þrjá Bandaríkjamenn sem N-Kóreumenn höfðu handtekið og lokað inni fyrir engar sakir í ríkjum sem virða mannréttindi. Flugu þeir frjálsir ferða sinna til Bandaríkjanna með Pompeo og tóku bandarísku forsetahjónin á móti þeim á flugvelli skammt frá Washington.

Kim Jong-un hitti Moon Jae-in, forseta S-Kóreu, fyrir tveimur vikum. Nú í vikunni fór Kim til Kína til annars fundar síns á skömmum tíma með Xi Jinping, forseta Kína.

Moon, forseti S-Kóreu, hefur lagt til að Trump fái friðarverðlaun Nóbels fyrir framgöngu sína gagnvart N-Kóreumönnum. Helsta von Moons er að Trump takist að semja við Kim um að Kóreuskagi verði kjarnorkuvopnalaust svæði.

Sérfræðingar telja að ákvörðun Trumps um að segja Bandaríkin frá kjarnorkusamningi við Írana geri Kim erfiðara en ella að treysta Trump. Hún minnki því líkur á nokkru haldföstu um kjarnorkuvopn N-Kóreumann. Þá er bent á að herinn sé eina haldreipi klíkunnar sem stjórnar N-Kóreu með harðri hendi – að hún afsali sér kjarnorkuvopnum sé borin von. Fyrsta kjarnorkuvopnatilraunin í N-Kóreu var gerð árið 2006.

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …