Home / Fréttir / Donald Trump hvetur vestrænar þjóðir til dáða að fordæmi Pólverja

Donald Trump hvetur vestrænar þjóðir til dáða að fordæmi Pólverja

Donald Trump flytur ræðu sína í Varsjá.
Donald Trump flytur ræðu sína í Varsjá.

Donald Trump Bandaríkjaforseti var í Varsjá höfuðborg Póllands fimmtudaginn 6. júlí á leið sinni á fund leiðtoga 20 helstu iðnríkja heims sem verður um helgina í Hamborg, Þýskalandi. Forsetinn flutti Pólverjum ræðu á Krasiński-torgi í Varsjá.

Ræðunni var vel fagnað af mannfjölda sem kom saman á torginu. Oftar en einu sinni varð forsetinn að gera hlé á máli sínu þegar mannfjöldinn hrópaði: Donald Trump! Donald Trump! Donald Trump!

Bandaríkjaforseti bar lof á Pólverja og góða samvinnu þeirra við Bandaríkjamenn og minnti á að árið 1920 hefðu Pólverjar stöðvað sovéska herinn þegar hann sótti inn í Evrópu. Þeir hefðu hins vegar 19 árum síðar orðið fyrir innrás nasista úr vestri og Sovétmanna úr austri.

Forsetinn rifjaði upp ólýsanleg illvirki gagnvart pólsku þjóðinni af tveimur hernámsríkjum, fjöldamorðin í Katýn-skógi, helförina, gettóið í Varsjá og uppreisnina þar, eyðileggingu Varsjár og að um 20% þjóðarinnar hefði fallið í valinn. Þar á meðal fjölmennasti hópur gyðinga í Evrópu, nasistar hefðu á skipulegan hátt myrt milljónir þeirra.

Hann bar lof á Pólverja fyrir uppreisnina í Varsjá undir stríðslok og minnti á að sovéski herinn hefði beðið átekta á meðan nasistar eyðilögðu borgina og reyndu að brjóta þjóðina á bak aftur í eitt skipti fyrir öll. Engum takist þó að eyðileggja hugrekki og sálarstyrk Pólverja, sagði Trump.

Undir stjórn kommúnista í fjóra áratugi hefðu Pólverjar við hlið annarra fjötraðra þjóða í Evrópu mátt þola harkalega aðför að frelsi sínu, trú, lögum, sögu og sjálfsmynd. Þeir hefðu þó aldrei misst kjarkinn. Það hefði mistekist að brjóta þá.

Trump minntist þess að 2. júní 1979 hefði ein milljón manna komið saman á Sigurtorginu í Varsjá til að taka þátt í fyrstu messunni með pólskum páfa sínum. Þann dag hlyti hver einasti kommúnisti í Varsjá að hafa áttað sig á að kúgunarkerfi þeirra myndi brátt líða undir lok.

Með Jóhannesi Páli II páfa hefðu Pólverjar áréttað eigin sjálfsmynd sem þjóð helguð guði. Þeir hefðu staðið saman gegn kúgun, gegn löglausri öryggislögreglu, gegn grimmu og spilltu kerfi. Pólverjar hefðu unnið, þeir mundu ætíð sigra. Bandaríkjaforseti sagði:

„Í þessum sigri ykkar á kommúnismanum nutuð þið stuðnings öflugs bandalags frjálsra þjóða í vestri sem stóðu gegn harðstjórn. Nú eru Pólverjar með traustustu aðila NATO og hafa skipað sér í fremstu röð þjóða í Evrópu sem er öflug, ein heild og frjáls.

Sterkt Pólland er blessun fyrir þjóðir Evrópu og þær vita það. Sterk Evrópa er blessun fyrir Vesturlönd og heiminn allan. Eitt hundrað árum eftir að Bandaríkjaher hóf þátttöku í fyrri heimsstyrjöldnni eru Atlantshafstengslin milli Bandaríkjanna og Evrópu eins öflug og þau hafa alltaf verið og kannski á margan hátt jafnvel öflugri.

Í álfunni standa menn ekki lengur frammi fyrir vofu kommúnismans. Á þessari stundu erum við á Vesturlöndum og við verðum að segja að það steðja skelfilegar ógnir að öryggi okkar og þeim háttum sem móta líf okkar. Þið sjáið hvað er að gerast annars staðar. Það blasa við ógnir. Við munum takast á við þær. Við sigrum. Við sjáum þessar ógnir.

Við stöndum frammi fyrir annarri kúgunar-hugmyndafræði – í nafni hennar eru flutt út hryðjuverk og öfgahyggja um heim allan. Hvað eftir annað hafa verið framin hryðjuverk í Bandaríkjunum og Evrópu. Við munum binda enda á þau.

Á sögulegum fundi í Sádí-Arabíu hvatti ég leiðtoga meira en 50 múslimaríkja til þess að taka höndum saman til að uppræta þessa ógnun sem beinist að öllu mannkyni. Við verðum að standa saman gegn þessum sameiginlegu óvinum til að svipta þá landi, fjármunum, netkerfi sínu og hvers konar hugmyndafræðilegum stuðningi sem þeir kunna að njóta. Við munum ávallt fagna nýjum borgurum sem viðurkenna gildi okkar og sem er annt um þjóðir okkar, landamæri okkar verða þó ávallt lokuð fyrir hvers kyns hryðjuverkum og öfgahyggju.

Við berjumst af hörku gegn hryðjuverkum öfgasinnaðra íslamista og við munum sigra. Við getum ekki samþykkt þá sem hafna gildum okkar og þá sem nota hatur til að réttlæta ofbeldi gagnvart saklausum.

Nú á tímum stöndum við á Vesturlöndum einnig andspænis öflum sem reyna að prófa viljastyrk okkar, grafa undan sjálfstrausti okkar og vega að hagsmunum okkar. Við okkur blasa nýjar árásaraðferðir, þar á meðal áróður, fjármálaglæpir og tölvuhernaður og við verðum að breyta starfsaðferðum bandalags okkar svo að það geti keppt með árangri á nýjum sviðum og á öllum nýjum orrustuvöllum.

Við hvetjum Rússa til að láta af aðgerðum sínum sem miða að því að grafa undan stöðugleika í Úkraínu og annars staðar og til að hætta stuðningi sínum við óvinveittar ríkisstjórnir – þar á meðal í Sýrlandi og Íran – og slást frekar í hóp með ábyrgum þjóðum í baráttu okkar gegn sameiginlegum óvinum og til varnar sjálfri siðmenningunni.

Loks ber að geta þess að beggja vegna Atlantshafs steðjar enn ein hættan að borgurum landa okkar – hætta sem er alfarið á okkar valdi. Sumum er þessi hætta ósýnileg en Pólverjar þekkja hana vel: stöðug útþensla skrifræðis ríkisins sem dregur mátt og fjármuni frá fólkinu. Vestrænar þjóðir öðluðust styrk sinn ekki vegna skriffinnsku og reglna heldur vegna þess að fólki var leyft að láta drauma sína og þrár rætast.[…]

Við semjum sinfóníur. Við stundum nýsköpun. Við heiðrum fornar hetjur okkar, leggjum rækt við eigin hefðir og venjur og leitum alltaf að glænýjum stöðum til að skoða.

Við viðurkennum snilli. Við viljum komast í fremstu röð og dásömum hrífandi listaverk til heiðurs guði. Við berum virðingu fyrir lögum og rétti og stöndum vörð um mál- og skoðanafrelsi.

Við eflum konur sem hornsteina samfélags okkar og þess árangurs sem við viljum ná. Við höfum trú á fjölskyldunni sem þungamiðju í lífi okkar, við höfum þessa trú ekki á opinberum aðilum og embættismannavaldinu. Og við tökum allt til umræðu. Við efumst um allt. Við reynum að vita allt svo að við vitum meira um okkur sjálf. […]

Ef við þekkjum sögu okkar vitum við hvernig við eigum að leggja grunn að framtíðinni. Bandaríkjamenn vita að öflugt bandalag frjálsra, fullvalda og sjálfstæðra þjóða er besta vörnin fyrir frelsi okkar og hagsmuni okkar. Þess vegna hefur ríkisstjórn mín krafist þess að allir aðilar NATO standi að lokum við sanngjarnar fjárhagsskuldbindingar sínar að fullu.

Vegna þessarar kröfu hafa nýir milljarðar dollara byrjað að streyma til NATO. Satt að segja er fólki mjög brugðið. Staðreynd er hins vegar að milljarðar dollara á milljarða ofan streyma frá þjóðum sem að mínu áliti hefðu annars ekki borgað svona fljótt.

Við þá sem kunna að gagnrýna harða afstöðu okkar vil ég segja að við Bandaríkjamenn höfum ekki aðeins í orði heldur einnig á borði sýnt að við stöndum fast að sameiginlegum varnarskuldbindingum í 5. grein [Atlantshafssáttmálans].

Auðvelt er að tala en verkin skipta máli. Til eigin varna – þið vitið þetta og allir vita þetta, allir verða að vita þetta – verða Evrópumenn að leggja meira af mörkum. Evrópumenn verða að sýna að þeir trúa á framtíð sína og gera það með því að nýta fjármuni til að tryggja þessa framtíð.

Vegna þessa fögnum við ákvörðun Pólverja nú í vikunni um að fá frá Bandaríkjunum Patriot- loft-og eldflaugavarnakerfið sem reynst hefur vel í átökum – það stendur því ekkert framar í heiminum. Einmitt þess vegna berum við einnig lof á Pólverja fyrir að vera í hópi þeirra NATO-þjóða sem hafa þegar náð takmarkinu með útgjöldum til sameiginlegra varna. Þakka ykkur, þakka ykkur, Pólverjar. Við ykkur segi ég: þið hafi svo sannarlega gefið frábært fordæmi og eigið lof skilið. Þakka ykkur.

Við verðum að minnast þess að varnir okkar eru ekki aðeins reistar á fjárhagsskuldbindingum þær eru reistar á viljanum sem að baki býr. […] Grundvallarspurning líðandi stundar er hvort vestrænar þjóðir vilji halda lífi. Höfum því þá trú á gildum okkar að við viljum verja þau hvað sem það kostar? Berum við næga virðingu fyrir borgurum okkar til að vernda landamæri okkar? Búum við yfir þrá og hugrekki til að varðveita siðmenningu okkar andspænis þeim sem vilja grafa undan henni og eyðileggja?

Við kunnum að ráða yfir stærstu hagkerfum og banvænustu vopnum sem finna má á jörðunni en án öflugra fjölskyldna og öflugra gilda verðum við veik og höldum ekki lífi. Gleymi einhver úrslita mikilvægi þessara þátta ætti hann að heimsækja land þar sem þetta hefur aldrei gleymst. Hann ætti að fara til Póllands. Hann ætti að koma hingað til Varsjár og kynna sér sögu Varsjár-uppreisnarinnar.

Vegna þessara orða Donalds Trumps um Varsjár-uppreisnina er eftirfarandi kafli úr Wikipediu birtur hér til fróðleiks:

Í seinni heimsstyrjöldinni var miðhluti Póllands, ásamt Varsjá, undir stjórn þýskra nasista. Öllum háskólum var lokað og allir gyðingar í borginni, nokkur hundruð þúsund manns eða 30 % af öllum borgarbúum, voru fluttir í Varsjárgettóið. Seinna varð borgin miðstöð andspyrnu gegn stjórn nasista í Evrópu. Hitler gaf fyrirmæli um að gettóið yrði eyðilagt þann 19. apríl 1943 en síðan hófst uppreisn í gettóinu gegn honum. Illa vopnaðir veittu íbúar gettósins viðnám í einn mánuð. Þegar bardaganum lauk voru eftirlifendur strádrepnir og mjög fáir komust undan.

Í júlí 1944 var Rauði herinn löngu kominn inn í Pólland og elti Þjóðverja í átt að Varsjá. Pólska ríkisstjórnin var í útlegð í London og vissi að Stalín var á móti sjálfstæðu Póllandi. Ríkisstjórnin gaf Heimahernum (p. Armia Krajowa) að reyna að ná Varsjá úr höndum Þjóðverja áður en Rauði herinn kæmist þangað. Þetta er Varsjár-uppreisnin sem hófst 1. ágúst 1944 þegar Rauði herinn nálgaðist borgina. Ætlunin var að ná borginni á 48 klukkustundum en bardögum lauk eftir 63 daga. Stalín skipaði hermönnum sínum að bíða fyrir utan Varsjá á meðan Þjóðverjar og Pólverjar börðust þar. Að lokum neyddist Heimaherinn til að gefast upp. Liðsmenn hans voru handteknir og settir í stríðsfangabúðir en allir óbreyttir borgarar voru reknir út úr borginni. Talið er að 150.000 til 200.000 pólskir óbreyttir borgarar hafi þá týnt lífi.

Þjóðverjarnir tortímdu borginni. Hitler skipaði að hún yrði eyðilögð og að öll bókasöfn og minjasöfn annaðhvort flutt til Þýskalands eða brennd. Minnismerki og stjórnarráðsbyggingar voru sprengd í loft upp. Um það bil 85 % af borginni var eyðilagt.

Þann 17. janúar 1945 héldu sovéskir hermenn inn í rústir borgarinnar.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …