Home / Fréttir / Donald Trump gerir atlögu að kjarnorkusamningnum við Írani

Donald Trump gerir atlögu að kjarnorkusamningnum við Írani

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti föstudaginn 13. október að hann mundi ekki gera neitt til að tryggja framtíð samningsins sem gerður var við Írana í forsetatíð Baracks Obama og ætlað er að koma í veg fyrir að Íranir eignist kjarnorkuvopn. Forsetinn rifti ekki samningnum fyrir sitt leyti en fór þess á leit við Bandaríkjaþing að það setti Írönum ný skilyrði sem ekki er að finna í samningnum.

Ýmis Evrópuríki eiga aðild að samningnum og létti mönnum þar yfir að Trump skyldi ekki ganga lengra til að grafa undan samningnum en hann gerði.

Frederica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði eftir að Trump hafði kynnt afstöðu sína: „Forseti Bandaríkjanna hefur mikil völd. En ekki þessi.“ Það er ekki vald til að rifta samningnum við Írani. Vísaði hún meðal annars til þess að um alþjóðasamning væri að ræða sem væri ígildi alþjóðalaga á grundvelli ályktunar SÞ.

Mogherini sagði Írani standa við sinn hluta samningsins án þess að hafa brotið hann á nokkurn hátt. Trump segir hins vegar að Íranir hafi brotið samninginn og þeir komist upp með það vegna þess hve lítið eftirlit sé með framkvæmd hans.

Norbert Röttgen, formaður utanríkismálanefndar þýska þingsins, sagði grundvallaratriði í alþjóðasamskiptum að menn stæðu við gerða samninga. Bandaríkjaforseti gerði nú atlögu að þessu meginatriði. Röttgen er náinn samstarfsmaður Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Þjóðverjar eiga aðild að samningnum.

Íranir gerðu samninginn við sex þjóðir, Bandaríkjamenn, Breta, Frakkar Þjóðverja, Rússa og Kínverja. Íranir hafa margítrekað að þeir vilji ekki eignast kjarnorkuvopn. Þeir vilja hins vegar geta nýtt úraníum til friðsamlegra nota og til að knýja kjarnorkuver. Ríkisstjórnir fimm samningsríkja hafa lýst andstöðu við áform Trumps um að breyta samningnum við Írani og segja hann ekki geta rift samningnum.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …