Home / Fréttir / Donald Trump boðar þjóðarsamstöðu í stefnuræðu – 69% telja stefnu hans rétta

Donald Trump boðar þjóðarsamstöðu í stefnuræðu – 69% telja stefnu hans rétta

Donald Trump flytur fyrstu stefnuræðu sína
Donald Trump flytur fyrstu stefnuræðu sína

Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti fyrstu stefnuræðu sína á Bandaríkjaþingi þriðjudaginn 27. febrúar. Fjölmiðlar segja að boðskapur hans hafi verið á þann veg að hann vildi sameina þjóðina og í fyrsta sinn hafi hann verið „forsetalegur“ í framkomu sinni. Ræðan þótti óvenjulega löng og tók um ein klukkustund í flutningi. Könnun á vegum CNN sýnir að 69% aðspurðra töldu forsetann boða rétta stefnu fyrir þjóðina en 29% sögðu hann á rangri leið.

Í ræðu sinni ítrekaði Trump ýmis mál sem settu svip á kosningabaráttu hans. Hann sagðist mundu „ræsa út“ spillingu í Washington með nýjum lögum gegn því að fyrrverandi þingmenn verði hagsmunamiðlarar (lobbyistar). Þá sagði hann að „innan skamms“ yrði hafist handa við að reisa „stóran stóran múr“ á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann lét þess ógetið hvernig staðið yrðu að greiðslu kostnaðar vegna framkvæmdarinnar.

Forsetinn hvatti til endurskoðunar á útlendingalöggjöfinni og leitað yrði fyrirmynda í Ástralíu og Kanada. Hann hét því að koma á fót gagnabanka þar sem skráð yrðu afbrot manna sem hefðu komið ólöglega til Bandaríkjanna.

Trump sló á viðkvæma strengi þegar hann vottaði fórnarlömbum ofbeldisglæpa og einstaklingi sem lifði af sjaldgæfan sjúkdóm virðingu sína en fólkið var meðal gesta í þingsalnum. Hann hvatti síðan alla til að heiðra Carryn Owens með lófataki en hún er ekkja Ryan Owens, liðsmanni í sérsveit flotans, Navy SEAL, sem féll í misheppnaðir árás í Jemen eftir að Trump varð forseti. Hann bar lof á Owens sem „fórnaði lífi sínu fyrir vini sína, fyrir land sitt og fyrir frelsi okkar – við munum aldrei gleyma honum,“ sagði forsetinn.

Trump gat þess að hann hefði fyrir skömmu hitt Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og þeir hefðu sammælst um að ýta undir frumkvæði kvenna í atvinnurekstri.

Þegar forsetinn vék að öryggis- og varnarmálum sagði hann: „Við erum eindregnir stuðningsmenn NATO.“ Hann bætti við að stjórn sín vænti þess að bandamenn hennar í NATO, Mið-Austurlöndum eða við Kyrrahaf létu sjálfir verulega að sér kveða í öryggismálum og bæru sanngjarnan hluta kostnaðar vegna þeirra.

Hann hét því að erfiðara yrði fyrir fyrirtæki að yfirgefa Bandaríkin. Hann mundi beina fé sem notað hefði verið til að aðstoða erlendar þjóðir til framkvæmda við „úr sér gengna innviði“ um öll Bandaríkin. Þá mundi hann búa til hvata svo að fyrirtæki sæju sér hag af því að eiga viðskipti við Bandaríkjamenn og ráða Bandaríkjamenn til vinnu.

„Bandaríkin verða að setja eigin ríkisborgara í fyrsta sæti, aðeins á þann veg tekst okkur í raun að endurreisa styrk Bandaríkjanna,“ sagði Trump.

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …