Home / Fréttir / Dómsmálaráðherra áréttar mikilvægi greiningar á farþegalistum

Dómsmálaráðherra áréttar mikilvægi greiningar á farþegalistum

837112

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagði á fundi Varðbergs fimmtudaginn 4. maí að Ísland hefði sérstöðu meðal ríkja varðandi landamæravörslu vegna þess hve hátt hlutfall þeirra sem koma til landsins færu um Keflavíkurflugvöll og flugstöðina þar. Þetta minnkaði þó ekki nauðsyn þess að halda slíku eftirliti hvarvetna í landinu enda færi það ekki aðeins fram við landamærin

Íslenska ríkið hefur að sögn ráðherrans ríkar skyldur til að tryggja lögmæta umferð til og frá landinu. Minnti hún á fréttir á sínum tíma um laumufarþega með skipi héðan til Bandaríkjanna. Hefði ekki verið gripið til strangara eftirlits við hafnir hér hefði atvikið getað leitt til að Bandaríkjamenn hefðu hækkað vástig vegna skipa frá Íslandi sem gæti valdið töluverðum vandræðum.

Dómsmálaráðherra sagði að greining á farþegum við komu til landsins væri „öflugasta tækið“ við landamæravörsluna. Í því efni skiptu skil flugfélaga á farþegaupplýsingum mestu.

Með breytingum á tollalögum hefði verið fest krafa um að skila bæri svonefndum PNR-upplýsingum til íslenskra yfirvalda og skipti samstarf lögreglu og tollayfirvalda við greiningu á þessum upplýsingum miklu.

Nú væri útfærð nýting á PNR-upplýsingum innan ESB og hefðu Norðmenn tekið forystu um að þeir, Íslendingar og Svisslendingar, aðilar að Schengen-samstarfinu nýttu sér kosti þessa samstarfs.

PNR-kerfið greinir ferðaupplýsingar, nöfn, heimilisföng, símanúmer, kaup á farseðlum og greiðsluleið. Með rannsóknarteymi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ætti að nýta sér þetta kerfi betur en til þessa, sagði ráðherrann, auk þess að efla trengsl lögreglu í Leifsstöð við önnur lögreglulið í landinu.

Dómsmálaráðherra áréttaði einnig mikilvægi þess að Íslendingar tækju virkan þátt í starfi Europol, Evrópulögreglunnar, og Frontex, Landamærastofnunar Evrópu.

Sigríður Á. Andersen sagði að „óhefðbundnir fólksflutningar“ yfir ytri landamæri Schengen- svæðisins væru „sérstök öryggisógn“. Vísaði hún þar til straums flótta- og farandfólks yfir landamæri Grikklands og Ítalíu við Miðjarðarhaf.

Hún sagði refsivert að koma til landsins á fölsuðum skilríkjum eða án skilríkja. Þetta ætti þó ekki við um hælisleitendur. Þeir sættu annarri meðferð en aðrir sem hingað kæmu án skilríkja eða með fölsuð skilríki

Ráðherrann sagði „áhlaup“ hafa verið gert á Ísland síðustu mánuði 2016. Á árinu hefði fjöldi hælisumsókna þrefaldast milli ára. 1.132 umsóknir bárust árið 2016 í samanburði við 354 árið 2015. Flestir hælisleitendur væru frá Albaníu og Makedóníu.

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …