Home / Fréttir / Dómsmálaráðherra á Varðbergsfundi: Áhlaup hælisleitenda frá Albaníu og Makedóiníu

Dómsmálaráðherra á Varðbergsfundi: Áhlaup hælisleitenda frá Albaníu og Makedóiníu

 

Frá Varðbergsfundinum með dómsmálaráðherra fimmtudaginn 4. maí 2017.
Frá Varðbergsfundinum með dómsmálaráðherra fimmtudaginn 4. maí 2017.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti erindi um borgaralega öryggisgæslu á fundi Varðbergs fimmtudaginn 4. maí aðeins þremur dögum eftir að dómsmálaráðuneytið var endurreisn með uppbroti innanríkisráðuneytisins milli þess og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.

Í upphafi máls síns gat ráðherrann þess að fjölmiðlamaður hefði haft samband við sig til að spyrja hvað fælist í heiti fyrirlestursins, hvort hann ætti að snúast um borgaralega handtöku eða eitthvað slíkt. Taldi ráðherrann þetta til marks að hér áttuðu menn sig ekki til fulls á muninum milli hernaðarlegrar öryggisgæslu og borgaralegrar. Hér væru þrír meginþættir sem líta bæri til vegna borgaralegrar öryggisgæslu sem væri í höndum lögreglu og landhelgisgæslu þetta væri: landamæravarsla, löggæsla og landhelgisgæsla.

Að sinna þessum verkefnum félli undir verksvið stofnana dómsmálaráðuneytisins og þar blöstu við mörg ný verkefni sem mætti kalla áskoranir. Nefndi ráðherrann þar sérstaklega fjölgun ferðamanna og ásókn hælisleitenda.

Verulegur hluti ræðu ráðherrans snerist um aukið eftirlit með fólki sem kemur til landsins á Keflavíkurflugvelli. Dómsmálaráðherra sagði að kostir aðildar að Schengen-samstarfinu væru fleiri en ókostirnir. Á hinn bóginn hefðu íslensk yfirvöld ekki nýtt sér allar heimildir innan ramma samstarfsins til eftirlits með þeim sem kæmu til landsins.

Taldi hún brýnt að efla allt greiningarstarf á farþegalistum sem bæri að afhenda íslenskum yfirvöldum lögum samkvæmt. Þá yrði leitað samstarfs við ESB-ríkin innan Schengen til að skipuleggja greiningarstarfið betur.

Sigríður Á. Andersen sagði að í fyrra hefði verið gert „áhlaup“ hælisleitenda frá Albaníu og Makedóníu á Ísland. Sagði hún að það hefði leitt til gífurlegs álags á starfsmenn útlendingastofnunar og lögreglunnar. Ekki hefði tekist að viðhalda þeim skamma tíma sem náðst hefði við afgreiðslu mála fólks frá öruggum löndum eins og Balkanlöndunum. Nú þyrfti að ná upp hraða í málum þessa fólks af því að það misnotaði sér hælisreglur með því að leita hingað. Gaf hún til kynna að um skipulega sendingu á fólki væri að ræða hingað til lands.

Að lokinni ræðu ráðherrans spurði einn fundarmanna hvers vegna Albönum og Makedóníumönnum væri ekki snúið við á punktinum þegar þeir kæmu til landsins. Dómsmálaráðherra sagði að gæta yrði allra reglna og mannréttinda gagnvart hælisleitendum, mál hvers og eins yrði að skoða, komast að niðurstöðu og síðan yrði lögregla að koma að brottflutningi færi fólk ekki á eigin vegum úr landi. Stjórnvöld heimalands brottvísaðs einstaklings yrði að samþykkja móttöku hans og gæti það tekið tíma.

Þá spurði fundarmaður hvort dómsmálaráðherra ætlaði að flytja tillögu á þingi um heimild lögreglu til að stunda forvirkar rannsóknir, það er rannsaka mál án gruns um að afbrot hefði verið framið. Ráðherrann sagði að skýr rök yrðu að liggja fyrir tillögu um það efni, í henni yrði einnig að felast skilyrði um að rannsókn yrði ekki hafin án úrskurðar dómara og þá yrði að tryggja eftirlit af hálfu alþingis.

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …