Home / Fréttir / Djúpt á samkomulagi um ESB-her, spurning um einstök samstarfsverkefni

Djúpt á samkomulagi um ESB-her, spurning um einstök samstarfsverkefni

A soldier patrols outside a fanzone ahead of the UEFA 2016 European Championship in Nice

Varnarmálaráðherrar ESB-ríkjanna komu saman til óformlegs fundar í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu, þriðjudaginn 27. september og ræddu meðal annars hugmyndir um sameiginlega herstjórn ESB. Andrew Rettman, blaðamaður vefsíðunnar EUobserver segir að eftir fundinn sé ljóst að langur tími líði áður en slíkri herstjórn verði komið á fót.

Hann segir að boðað hafi verið til fundarins eftir að Ítalir lögðu til að stofnað yrði til fastahers ESB og í því fælist pólitískt svar við ákvörðun Breta um að segja sig úr ESB og við þeirri útbreiddu skoðun að Evrópa ætti sífellt meira undir högg að sækja og gæti ekki gætt eigin öryggis.

Frakkar og Þjóðverjar hafa einnig lagt til að til sögunnar komi ESB-stjórnstöð sem hafi yfirstjórn aðgerða í nafni ESB auk þess sem lagt verði fram fé til að mynda hersveitir með þátttöku nokkurra ESB-ríkja sem taki að sér sérgreind verkefni.

Eftir fundinn í Bratislava sagði Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB, að „samhljómur“ væri um að nauðsynlegt væri að huga að samvinnu í varnarmálum. Hún sagði jafnframt að rætt væri um einstaka þætti eins og sameiginlega fjárfestingu við vopnasmíði, rannsóknir og þróun, betri undirbúning aðgerða á fjarlægum slóðum og mál í þessa veru.

Finnar buðust til að hafa forgöngu um þekkingarmiðstöð til rannsókna og aðgerða gegn tölvuárásum.

„Málið snýst ekki um Evrópuher heldur um meiri og öflugri samvinnu í varnarmálum,“ sagði Mogherini við blaðamenn í Bratislava. Spurð um andstöðu Breta við ESB-her sagðist hún á þessum þriggja tíma fundi aldrei hafa heyrt orðið „neitun“ eða orðið „hindra“ eða orðið „her“. Þarna hefði ekki verið um neitt hugarflug að ræða heldur umræður um framkvæmanlega hluti í þágu evrópsks almennings sem vilji að öryggi sitt sé tryggt.

Eins og áður hefur verið sagt frá hér á síðunni áréttaði Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, andstöðu ríkisstjórnar sinnar við ESB-her á þessum fundi í Bartislava.

Ursula Von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði eftir fundinn 27. september að Frakkar og Þjóðverjar teldu að fyrir lok þessa árs myndi málum hafa miðað vel  við einstök verkefni á þessu sviði innan ESB. Málið snerist ekki um ESB-her heldur um að samhæfa kraftana og nýta mannafla og fjármuni betur.

Á vefsíðunni EUobserver er haft eftir embættismanni ESB sem sat fundinn í Bratislava að tillaga Ítala um fastaher ESB hefði ekki einu sinn verið rædd á fundinum en hins vegar hefðu allir rætt hugmyndina um sameiginlega herstjórn.

Fyrir utan Breta hafa Pólverjar, Hollendingar og Svíar lagst gegn tillögunni um ESB-herstjórn. Embættismaðurinn sagði að stjórnir um 10 ríkja, þ. á m. Tékklands, Finnlands, Ungverjalands, Portúgals og Spánar útilokuðu ekki sameiginlega herstjórn þegar fram liðu stundir.

Embættismaðurinn sagði að Þjóðverjar og Frakkar væru „langt á undan öðrum“ með upphaflegum tillögum sínum. Hann sagði að allar umræður hæfust á heitstrengingum um aukna hagkvæmni en tækju fljótt að snúast um meginviðhorf.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …