Home / Fréttir / Die Welt: Bresku íhaldsblöðin fegra árangur Boris Johnsons

Die Welt: Bresku íhaldsblöðin fegra árangur Boris Johnsons

 

Emmanuel Macron og Boris Johnson í París.
Emmanuel Macron og Boris Johnson í París.

Í þýska blaðinu Die Welt segir fimmtudaginn 22. ágúst um fund Emmanuels Macrons og Boris Johnsons í París sama dag að það hafi ekki verið spenna í lofti þegar þeir hittust fyrir framan Elysée-forsetahöllina í París og efndu til stutts blaðamannafundar.

Á fundinum áréttaði Johnson að hann vildi semja um útgöngu Breta úr ESB,  brexit, og bar lof á „jákvæðan anda“ á fundi sínum með Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Berlín miðvikudaginn 21. ágúst. Hann vonaði að Macron hefði svipaða afstöðu en franski forsetinn er þekktur fyrir harða afstöðu sína vegna brexit.

Þýska blaðiðs segir að með þessum orðum vilji Johnson draga upp þá mynd til heimabrúks að hótun hans um útgöngu án samnings 31. október 2019 hafi haft áhrif bæði á Merkel og Macron. Honum hafi þegar tekist að auka fylgi sitt meðal kjósenda með allt-eða-ekkert-afstöðunni. Kannanir sýni fylgisaukningu Íhaldsflokksins.

Íhaldsblöðin í Bretlandi sögðu eftir fund Johnsons með Merkel að hann markaði „þáttaskil“ fyrir Johnson. Gengi pundsins hækkaði við fréttirnar.

Die Welt segir að kanslarinn hafi ekki gert annað en að endurtaka það sem hún hafi áður sagt. Málum sé hins vegar þannig háttað í London að menn túlki orð sem falla á þann veg sem þeim henti, hvort sem þeir eru með eða á móti brexit.

Macron sagði einnig við Johnson að á næstu 30 daga mætti hugsanlega finna lausn. Frakklandsforseti sýndi þó lítinn sveigjanleika þegar kom að írska varnaglanum, (e. backstop). „Við verðum að ábyrgjast stöðugleika á Írlandi og tryggja heilleika evrópska markaðarins,“ sagði Macron. Í líkingamáli blaðamanna er Macron gjarnan lýst sem bad cop en Merkel sem good cop gagnvart Bretum vegna brexit.

Macron gaf afdráttarlaust til kynna að ekki yrði um „algjörlega nýjan samning“ að ræða þar sem fyrir lægi ávöxtur „mjög mikilvægs einróma starfs“. Það væri ekki unnt að víkja frá ákvæðum þessa samnings ef ekki væri um neinn annan sannfærandi kost að ræða. Það væri í höndum Breta að ákveða hvað þeir vildu.

Þýska blaðið vitnar í The Telegraph  sem líti fram hjá skilyrðum Macrons og segi að í fyrsta sinn gefi leiðtogar ESB til kynna að þeir séu tilbúnir til að breyta um afstöðu til viðskilnaðarsamningsins. Die Welt segir að með góðum vilja megi túlka orð Macrons á þennan veg. Þessi túlkun sé hins vegar í andstöðu við orð Macrons í aðdraganda komu Johnsons þegar hann sagði það „ekki kost“ að semja um írska varnaglann.

Die Welt segir að hvað sem líði túlkunum fjölmiðlavina breska Íhaldsflokksins um að Johnson hafi náð árangri í Evrópuferð sinni séu fréttaskýrendur á meginlandinu þeirrar skoðunar að í þessum túlkunum megi greina afsökunartón fyrir forsætisráðherrann. Þýskir og franskir fjölmiðlar skýri harða afstöðu Johnsons gegn varnaglanum sem tilraun til að kenna ESB um að brexit verði án samnings.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …