Home / Fréttir / Der Spiegel: Efast má um að aðgerðir NATO á austurvængnum nái tilgangi sínum

Der Spiegel: Efast má um að aðgerðir NATO á austurvængnum nái tilgangi sínum

 

NATO-heræfing í Litháen.
NATO-heræfing í Litháen.

Á Varsjár-fundi ríkisoddvita NATO-landanna 8. og 9. júlí voru teknar ákvarðanir sem urðu Klaus Wiegrefe, dálkahöfundi þýska vikuritsins Der Spiegel, tilefni til að skrifa hugleiðingu um að nú hefðu „haukarnir“, það er harðlínumenn gagnvart herveldi Rússa, náð undirtökunum á Vesturlöndum. Vissulega mætti rekja upphaf núverandi spennu til óbilgirni Vladmírs Pútíns Rússlandsforseta en gæta yrði meðalhófs í viðbrögðum NATO.

Undir lok greinar sinnar segir Wiegrefe að í ljósi sögunnar sé kaldhæðnislegt að Rússar fylgi nú sömu stefnu varðandi fælingarmátt kjarnorkuvopna og NATO gerði gagnvart Varsjárbandalaginu þegar kalda stríðið stóð hæst. Rússar sem standi illa að því er venjulegan vopnabúnað varðar vilji halda hugsanlegum andstæðingi í skefjum með því að hóta honum beitingu kjarnorkuvopna.

„Í okkar huga er fráleitt að ímynda sér að NATO búi sig undir að senda herafla inn í St. Pétursborg. Bandalagið er varnarbandalag og hvorki Obama né Merkel, Cameron né Hollande vilja breyta því, þau geta það ekki heldur,“ segir Wiegrefe.

Hann segir hins vegar að menn megi ekki ætla að aðeins vestrænir haukar telji allt geta farið á versta veg. Því miður sé slíkur hugsunarháttur hefðbundinn meðal rússneskra herfræðinga. Við athugun á sovéskum skjölum sem urðu aðgengileg eftir að kalda stríðinu lauk hafi menn undrast hvað mest að elíta kommúnista hafði íhugað árás á NATO, bandalag sem meira að segja þá taldi sér helst til tekna að viðhalda friði.

Í greininni segir:

„Þegar NATO efndi til heræfingar haustið 1983 greip um sig svo mikill ótti við árás úr vestri meðal ráðamanna í Moskvu að þeir hækkuðu viðbúnarstig kjarnorkuherafla síns og útsendarar KGB reyndu að komast að því hvort Bretar hefðu aukið birgðir sínar af blóði til að búa sig undir stríð. Næst á eftir Kúbudeilunni árið 1962 eru fyrstu dagarnir í nóvember 1983 nú taldir eitt hættulegasta tímabilið í sögu átaka austurs og vesturs.

Fyrrverandi KGB-maðurinn Pútín og flestir nánustu menn hans ólust upp í sovéska kerfinu. Þeir hafa aldrei hætt að líta á NATO sem ógnandi stofnun. […]

Algjört öryggi annars aðila jafngildir algjöru öryggisleysi allra annarra landa. Pútín hefur þegar sagt að hann muni svara nýjum aðgerðum NATO með gagnaðgerðum.

Yfirlýst markmið NATO er að auka öryggi á austurvæng sínum. Það er réttmætt að efast um að NATO nái því markmiði.“

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …