Home / Fréttir / Deilurnar um flutning líkamsleifa Francos á lokastigi

Deilurnar um flutning líkamsleifa Francos á lokastigi

 

Francisco Franco, einræðisherra Spánar.
Francisco Franco, einræðisherra Spánar.

 

Kaþólska kirkjan á Spáni sagði fimmtudaginn 26. september að hún stæði ekki gegn því að líkamsleifar einræðisherrans Franciscos Francos yrðu grafnar upp og fjarlægðar úr risavöxnu grafhýsi hans skammt frá Madrid.

Santiago Cantera príor Benediktína munka sem fara með umsjá grafhýsisins lagðist eindregið gegn flutningi líkamsleifanna. Á sínum tíma voru náin tengsl milli stjórnar Francos og kaþólsku kirkjunnar.

Hæstiréttur Spánar úrskurðaði þriðjudaginn 24. september að flytja mætti jarðneskar leifar Francos að ósk ríkisstjórnarinnar en í andstöðu við afkomendur einræðisherrans. Á blaðamannafundi fimmtudaginn 26. september sagði Luis Arguello, ritari biskuparáðs Spánar að spænska kikjan mundi „virða ákvörðun spænskra yfirvalda og þess vegna ekki leggjast gegn uppgreftri Francos“.

Arguello sagði að príorinn hefði í fjölmiðlum sagt að hann vildi kanna hæstaréttardóminn til hlítar en hann ætlaði einnig að hlusta á afstöðu kirkjuyfirvaldanna.  Leita mætti til Páfagarðs til að auðvelda príornum að komast að niðurstöðu yrði þess þörf.

Heimild hæstaréttar

Spænska ríkisstjórnin hefur heimild til að grafa upp líkamsleifa Franciscos Francos  og flytja úr minningarreitnum í Dal hinna föllnu (50 km frá Madrid) til El Pardo-Mingorrubio kirkjugarðsins 20 km fyrir norðan Madrid. Hæstiréttur Spánar felldi dóm um þetta þriðjudaginn 24. september og gaf þar með starfandi forsætisráðherra Spánar, sósíalistanum Pedro Sánchez, leyfi til að framkvæma stefnu sína.

Óvíst er hvort ríkisstjórninni gefist tóm til að flytja líkamsleifar Francos fyrir þingkosningar á Spáni 10. nóvember 2019.

Hæstaréttardómararnir voru einróma þegar þeir höfnuðu kröfu um að stöðva röskun á grafarró Francos. Barnabörn Francos voru meðal þeirra sem gerðu kröfuna og beita þau sér af  hörku gegn stefnu sósíalista. Fengi afi þeirra ekki að hvíla í friði ætti þó að minnsta kosti að flytja hann í grafhýsi fjölskyldunnar í La Almuedena dómkirkjunni í hjarta Madrid. Ákvörðun í þessa veru hefði orðið mjög vandasöm fyrir ríkisstjórnina og borgaryfirvöld þar sem dómkirkjan er á einum helsta ferðamannastað borgarinnar.

Starfsstjórn Spánar beið niðurstöðu dómstólsins með öndina í hálsinum. Nánustu ráðgjafar Sánchez hafa lagt sig alla fram og varið löngum tíma til fá líkamsleifarnar fluttar en jafnan rekið sig á kærur og málssókn fjölskyldunnar fyrir dómstólum.

Ríkisstjórnin taldi versta kostinn að Franco yrði grafinn í La Almudena. Þar með hefði Franco orðið eini leiðtogi fasista í stóru Evrópuríki til að hvíla í dómkirkju.

Stjórnvöldum tókst 10. júni 2019 að fá lokasamþykki við áformum sínum en hæstiréttur setti málið í bið þar til hann hefði tekið afstöðu til áfrýjunar fjölskyldunnar og þriggja annarra samtaka, frá Francisco Franco stofnuninni, samfélagi Benediktína og Samtökum til varnar Dal hinna föllnu.

Sumarið 2018 var það eitt fyrsta verk Sánchez eftir valdatöku sósíalista að boða flutninginn á líkamsleifum Francos. Kosið verður til þings Spánar í fjórða sinn á fjórum árum 10. nóvember. Nú mun ríkisstjórnin leggja höfuðkapp á að ljúka framkvæmd þessa stefnumáls síns fyrir kosningarnar.

Að fenginni blessun dómstólanna þurfti starfsstjórnin aðeins heimild kirkjuyfirvalda til að fara inn í basilíkuna í Dal hinna föllnu og sækja líkamsleifarnar. Eins og áðuir segir stendur príor Benediktína-munkanna enn gegn því.

Það kunna því enn að vera ljón í veginum þrátt fyrir dóm hæstaréttar. Fjölskylda Francos segir að hún ætli að skjóta málinu til stjórnlagadómstólsins. Þar með kynni framkvæmd þess enn að frestast.

Við þetta bætist síðan að dómari í Madrid frestaði útgáfu á leyfi til að hrófla við sjálfri gröfinni inni í basilíkunni. Reisti dómarinn ákvörðun sína á kröfu frá Francisco Franco stofnuninni þar sem bent var á að vinna við að færa tveggja tonna grafsteininn mundi „stofna öryggi verkamanna og eigna í hættu“.

Carmen Calvo, starfandi varaforsætisráðherra, sagði hins vegar þriðjudaginn 24. september að verkinu yrði lokið tímanlega. „Við vinnum þetta mjög hratt. Þeim mun hraðar því betra þar sem hvatt er til þess í dóminum og best er að það gerist sem fyrst áður en kosningabaráttan hefst.“

Til að tryggja framgang þessa máls breytti stjórn sósíalista lögum um sögulega minningu. Lögin voru umdeild þegar önnur stjórn sósíalista beitti sér fyrir samþykkt þeirra fyrir rúmum áratug þegar José Luis Rodríguez Zapatero var forsætisráðherra 2004 til 2011. Markmið laganna var að koma til móts við þá sem áttu um sárt að binda vegna blóðugu borgarastyrjaldarinnar á Spáni. Þar var meðal annars mælt fyrir um leit að líkamsleifum þeirra sem skotnir voru af aftökusveitum og lagðir í fjöldagrafir eða skildir eftir í vegaskurðum víða um landið. Talið er að um 114.000 „horfnir“ einstaklingar séu á Spáni, mesti fjöldi í einu ríki fyrir utan Kambódíu.
Þegar íhaldssami Lýðflokkurinn komst til valda árið 2011 var skorið á allar fjárveitingar vegna sögulegu minningarlaganna. Í fjárlagatillögum sósíalista var gert ráð fyrir 15 milljónum evra í þágu laganna. Fjárlagafrumvarpið hlaut ekki samþykki sem leiddi til þingkosninga í apríl 2019. Mynda þarf nýja ríkisstjórn til að tryggja fjármagn vegna laganna um sögulegar minningarminjar.

 

Dalur hinna föllnu

Dalur hinna föllnu er 13,6 ferkílómetrar. Svæðið er mjög umdeilt á Spáni vegna heitra tilfinninga sem tengjast minningunni um einræðisstjórn fasistans Franciscos Francos sem stjórnaði Spáni frá lokum borgarastríðsins árið 1939 þar til hann andaðist 1975.

Yfirlýstur tilgangur með minningarreitnum var að þar hvíldu fórnarlömb úr báðum fylkingum sem háðu blóðugt borgarastríðið á Spáni (1936-1939). Þar er að finna leifar rúmlega 33.000 fallinna án þess að þeir séu nafngreindir. Í dalnum er basilíka og 150 m hár kross sem gnæfir yfir dalinn og nágrenni hans. Gagnrýnendur benda á að þar séu líka aðeins tvær merktar grafir, Franco sjálfur hvílir í annarri en José Antonio Primo de Rivera, stofnandi Falangista, fasistahreyfingar Spánar, í hinni. Þá snertir það marga illa að þúsundum stríðsfanga úr óvinaher Francos var skipað að vinna mannvirki í dalnum þegar þau voru reist.

 

 

.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …