Home / Fréttir / Deilt um sovéskt stríðsminnismerki í Eistlandi

Deilt um sovéskt stríðsminnismerki í Eistlandi

Eitt af sovésku minnismerkjunum sem nú verða fjarlægð í Eistlandi.

Eistnesk stjórnvöld munu brátt sjá til þess að öll minnismerki í Eistlandi um stjórnartíð Sovétmanna verði fjarlægð, segir Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands. Hún segir að enn megi sjá frá 200 til 400 minnnismerki frá Sovéttímanum í landinu.

„Nú hefur þetta verið ákveðið. Öll sovésk minnismerki verða fjarlægð af opinberum svæðum og það verður gert eins fljótt og verða má,“ sagði forsætisráðherrann á blaðamannafundi fimmtudaginn 4. ágúst.

Þessari ákvörðun er ekki fagnað af öllum í landinu. Miðvikudaginn 3. ágúst þegar lausafréttir bárust um að ákvörðun í þessa veru kynni að verða tekin tók fólk að safnast saman við umdeilt skriðdreka-minnismerki við landamærabæinn Narva í austurhluta Eistlands, skammt frá rússnesku landamærunum.

Meira en 90% af 60.000 íbúum Narva eru rússneskir að uppruna og yfirvöld bæjarins hafa lýst andstöðu við að minnismerkið verði fjarlægt. Kallas verður hins vegar ekki haggað.

„Skriðdreki er drápstæki, ekki heiðursvarði í minningarskyni. Samskonar skriðdrekar eru notaðir um þessar mundir til að drepa fólki á götum í Úkraínu,“ sagði hún.

Um fjórðungur íbúa Eistlands er af rússneskum uppruna, kannanir sýna að margir þeirra styðja innrás Rússa í Úkraínu.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …