Home / Fréttir / Deila Rússa og Úkraínumanna eftir hertöku skipa á Svartahafi í hnút

Deila Rússa og Úkraínumanna eftir hertöku skipa á Svartahafi í hnút

Hertekin skip flota Úkraínu.
Hertekin skip flota Úkraínu.

Vestrænar ríkisstjórnir hafa lýst stuðningi við stjórn Úkraínu eftir að Rússar hertóku þrjú skip og 23 sjóliða frá Úkraínu á Svartahafi undan Krímskaga sunnudaginn 25. nóvember.

Seint mánudaginn 26. nóvember birtu vestrænir forystumenn yfirlýsingar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þar sem þeir fordæmdu „forkastanlegt“ brot Rússa gegn fullveldi Úkraínu og alþjóðasamningum um siglingafrelsi. Þá voru ráðamenn í Moskvu hvattir til að láta sjóliðana lausa.

Beitt var skotvopnum um borð í rússneskum strandgæsluskipum gegn herbátum Úkraínu áður sérsveitarmenn ruddust um borð í þá. Sex Úkraínumenn særðust, tveir alvarlega.

Að kvöldi mánudags 26. nóvember var herlögum lýst í hluta Úkraínu. Rússar segja stjórnendur skipa Úkraínu hafa brotið siglingabann.

Rússar hafa frá 2014 staðið að baki hernaði aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Alls hafa rúmlega 10.400 manns fallið í átökunum frá apríl 2014.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmdi „þessa árásaraðgerð Rússa“, hvatti þá til að skila skipunum og áhöfnum þeirra og virða alþjóðlega viðurkennd landamæri Úkraínu og lögsögu landsins á hafi úti. Aðilar deilunnar ættu að halda aftur af sér og hlíta alþjóðlegum skuldbindingum – forsetar Rússlands og Úkraínu ættu milliliðalaust að beita sér fyrir lausn deilunnar.

Fyrir utan að setja herlög í hluta Úkraínu í 30 daga frá með 28. nóvember hefur stjórn Úkraínu kallað út her landsins að hluta, eflt loftvarnir sínar og gripið til aðgerða til að efla gagnnjósnir, varnir gegn hryðju- og skemmdarverkum.

Skýrt var frá því í Kreml þriðjudaginn 27. nóvember að Vladimír Pútín forseti hefði rætt í síma við Angelu Merkel Þýskalandskanslara og lýst „alvarlegum áhyggjum“ yfir ákvörðunum stjórnar Úkraínu. Þá hefði forsetinn einnig lýst þeirri von að þýska stjórnin gæti haft áhrif á stjórnvöld í Úkraínu til að þau gripu ekki til „frekari ábyrgðarlausra aðgerða“.

Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, sagði að setning herlaganna gæti leitt til stigmögnunar spennu á átakasvæðinu í suðaustur hluta Úkraínu.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri ESB, sagði „óviðunandi“ að Rússar hefðu áhafnir skipa Úkraínu í haldi og hvatti til þess að þeim yrði „sleppt tafarlaust“. Hún hvatti báða aðila einnig til að sýna „ýtrustu varkárni“ til að hindra að einu stríðsátökin í Evrópu mögnuðust.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði Rússa verða að skilja að framganga þeirra drægi dilk á eftir sér. NATO yrði í sambandi við stjórn Úkraínu til að árétta stuðning sinn.

Um það sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði að segja hafa fréttaskýrendur haft þau orð að hann kveði ekki eins fast að orði og embættismenn stjórnar hans. Forsetinn sagði:

„Hvað sem öllu líður líkar okkur ekki það sem þarna gerist. Vonandi tekst þeim að finna út úr þessu. Ég veit að Evrópumenn eru ekki – þeir eru ekki yfir sig hrifnir. Þeir láta þetta einnig til sín taka. Við allir látum þetta saman til okkar taka.“

 

Heimild: RFE/RL

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …