
Kristilega sósíalsambandið (CSU) fékk flest atkvæði í kosningunum til sambandslandsþings Bæjaralands í München. Flokkurinn tapaði þó meirihluta sínum á þinginu og verður nú í þriðja sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar að mynda stjórn með öðrum flokki.
Útgönguspár að loknum kosningunum síðdegis sunnudaginn 14. október sýna að CSU fái 35,5% atkvæða. Græningjum er spáð 18,5%. Þá koma Frjálsir kjósendur (til hægri) með 11,5%, í fjórða sæti eru Alternative für Deutschland (AfD) (hörð útlendingastefna) með 11% í fimmta sæti Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) með 10% og loks Frjálsir demókratar (FDP) með 5%, rétt nóg til að fá menn á þing.
Eigi að mynda tveggja flokka stjórn í Bæjaralandi þarf Markus Söder, forsætisráðherra og leiðtogi CSU, að mynda stjórn með græningjum. Af beggja hálfu var lýst efasemdum um þá leið í kosningabaráttunni. Þriggja flokka stjórn CSU, Frjálsra kjósenda og FDP yrði stjórn þingmanna hægra megin við miðju.
Úrslit í kosningunum verða kunn að kvöldi sunnudags 14. október eða morgni mánudags 15. október.