
Søren Espersen, formaður utanríkismálanefndar danska þingsins, segir í grein á vefsíðunni altinget.dk föstudaginn 26. janúar að „katastrófa“ blasi við Grænlendingum hætti stjórnmálamenn þar ekki að lifa í draumaheimi um sjálfstæði og snúi sér frekar að lausn eigin mála.
Í upphafi greinarinnar segir Espersen, þingmaður Danska þjóðarflokksins, að Grænland sé á barmi gjaldþrots. Grænlenskir stjórnmálamenn helgi alla krafta draumum sínum um sjálfstæði. Danskir stjórnmálamenn láti sjónaukann fyrir blinda augað þegar komi að vanda Grænlendinga af ótta við að vera sakaðir um að haga sér eins og nýlenduherrar.
Í greininni vísar Espersen til umræðna um efnahagshorfur á Grænlandi í fyrirspurnartíma danska þjóðþingsins föstudaginn 19. janúar. Hann segir að þar hafi komið fram að Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra átti sig til fulls á því hverjar séu efnahagshorfur á Grænlandi. Hann geti þó ekkert gert vegna þess að Grænlendingar vilji ekki „niðurlægja sig með því að sækja um aðstoð og stuðning frá Danmörku“.
Hann telur að danskir þingmenn skilji hve illa horfi fyrir Grænlendingum þótt þeir fái 4 milljarða danska krónur (67 milljarða ísl. kr.) árlega í styrk á dönskum fjárlögum. Þingmennirnir óttist hins vegar nýlenduherra-stimpilinn ræði þeir vanda Grænlendinga og leiðir úr ógöngum þeirra. Þetta finnst Espersen hlægileg afstaða þegar hugað sé að öllum tímanum sem varið sé á þinginu til að ræða vanda Palestínu, Vestur-Sahara, Zimbabwe, Perú og Suður-Súdans. Á Grænlandi sé þó um danska ríkisborgara að ræða.
Hann segir að afskiptaleysi danskra þingmanna sé ekki annað er vatn á myllu veruleikafirrtra grænlenskra stjórnmálamanna sem láti hjá líða að sinna vanda eigin lands vegna áhuga á staðlausum draumum.
Ekki sé minnst á hvað gerist þegar 4 milljarða stuðningur Dana hverfur og landssjóður Grænlands verður af meira en helmingi tekna sinna. Það sé ekkert talað um hvað gerist þegar öll útgjöld til heilbrigðismála, menntamála, löggæslu og réttarkerfisins lenda 100% á Grænlendingum á sama tíma og duglegt fólk flýr landið og sest að í Danmörku.
Því síður sé vakið máls á hvernig taka skuli á erfiðum stjórnsýsluverkefnum sem lendi í höndum Grænlendinga eins og útlendingamálum, vinnueftirlits- og matvælaeftirlitsmálum, utanríkisþjónustu, öryggis- og varnarmálum og stjórn siglingamála. Ekki er rætt um kostnaðinn sem þarf að greiða vegna þessa eða hverjir hafi menntun eða reynslu til að sinna verkefnunum.
Espersen segir að utan Danmerkur og Grænlands fylgist menn með losaralegri sjálfstæðisumræðunni og hræðist stjórnmálaástandið á Grænlandi. Þess vegna haldi óttaslegnir fjárfestar að sér höndum hvort heldur litið sé til ferðaþjónustu eða auðlindanýtingar.
Grein sinni lýkur Søren Espersen á þessum orðum:
„Í stuttu máli grefur sjálfstæðistalið illilega undan velferð og lífskjörum Grænlendinga.
Síðasta von mín fyrir Grænland er að innan skamms tíma komi til sögunnar flokkur með aðild íhugulla stjórnmálamanna sem geri upp við sjálfstæðistalið og snúi sér frekar að því að ríkjasambandið vinni að lausn vanda landsins. Ég hef heyrt orðróm um að þetta sé að gerast. Það yrði svo sannarlega til gagns og gleði fyrir Grænland.“