Home / Fréttir / Danskir stjórnmálamenn vilja íhuga betur aðild Dana að eldflaugavarnarkerfi NATO

Danskir stjórnmálamenn vilja íhuga betur aðild Dana að eldflaugavarnarkerfi NATO

Dönsk flotadeild.
Dönsk flotadeild.

Dönsk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að taka þátt í eldflaugavarnarkerfi NATO í Evrópu og leggja til þess dönsk herskip auk milljarða danskra króna í fjárfestingar vegna aðildar að kerfinu. Jyllands-Posten segir í frétt laugardaginn 2. apríl að frá með 2018 verði öll Danmörk hins vegar undir vernd eldflaugavarnarbúnaðar í Póllandi. Þetta megi sjá af korti sem blaðið hafi fengið frá hollenska flotanum sem leggur sitt af mörkum til eldflaugavarnarkerfisins.

„Þegar Aegis-stöðin í Póllandi verður komin til sögunnar árið 2018 er unnt að verja Danmörku þaðan. Varnarflaugar sem skotið er frá Póllandi verja Danmörku til dæmis gegn skotflaugum frá Mið-Austurlöndum,“ segir Fred Douglas, flotaforingi í Hollandi og stjórnandi eldflaugavarnarkerfi Hollands sem reist er á háþróuðum ratsjám um borð í freigátum eins og danska kerfið.

Jens Wenzel Kristoffersen, herfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla, staðfestir að Danmörku sé viss vernd af kerfinu í Póllandi en hún leiði til þess að Danir verði jafnframt að treysta á að aðrir gæti þeirra án þess að  danski herinn ráði sjálfur yfir getu til að verja þjóðina gegn langdrægum eldflaugum.

„Það getur verið ágætt að pólska stöðin veiti hluta Norðurlanda vernd en hvað um getu okkar sjálfra til að gera eitthvað?“ spyr Jens Wenzel Kristoffersen í Jyllands-Posten.

Samhliða því sem þessi frétt um vernd frá Póllandi leiðir til umræðu um þátttöku Dana í eldflaugavarnarkerfinu telja ýmsir að samkomulagið sem náðst hefur milli stjórnvalda í Íran og á Vesturlöndum dragi úr hættunni á eldflaugaárás frá Íran. Hafa Danski þjóðarflokkurinn, stuðningsflokkur dönsku ríkisstjórnarinnar, og Jafnaðarmannaflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, óskað eftir nýju herfræðilegu mati á nauðsyn eldflaugavarnarkerfis sem einkum er beint gegn hryðjuverkahópum eða óvinveittum ríkjum á borð við Íran sem ræður yfir langdrægum eldflaugum.

Danir hafa lofað þátttöku sinni í eldflaugavörnum NATO. Peter Christensen varnarmálaráðherra staðfestir að varnarkerfið í Póllandi verji Danmörku en ráðherrann segir að .það breyti ekki ákvörðuninni um að Danir leggi sitt af mörkum til eldflaugavarnarkerfis NATO.

„Það munum við gera vegna þess að NATO hefur farið sérstaklega fram á að Danir taki þátt í eldflaugavörnum NATO,“ segir ráðherrann og áréttar að Danir hafi ekki gerst aðilar að varnarkerfinu til þess sérstaklega að mynda varnarkerfi um land sitt heldur til þess að til verði sameiginlegt kerfi sem dugi til að verja allt NATO-svæðið.

Fyrir einu ári flutti rússneski sendiherrann í Kaupmannahöfn Dönum þau varnaðarorð að þátttaka þeirra í eldflaugavarnarkerfinu gæti þýtt að „dönsk herskip verði skotmark rússneskra kjarnorkueldflauga“.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …