Home / Fréttir / Danskir jafnaðarmenn harðir í útlendingamálum – ný vinstri hreyfing í Þýskalandi

Danskir jafnaðarmenn harðir í útlendingamálum – ný vinstri hreyfing í Þýskalandi

 

Mette Frederiksen, formaður danskra jafnaðarmanna.
Mette Frederiksen, formaður danskra jafnaðarmanna.

Mette Frederiksen, formaður danskra jafnaðarmanna, sagði á blaðamannafundi miðvikudaginn 22. ágúst að loknum sumarfundi þingflokks síns að yrði mynduð ríkisstjórn vinstri flokkanna í Danmörku að loknum næstu þingkosningum mundi Jafnaðarmannaflokkurinn undir hennar stjórn ekki breyta um stefnu í útlendingamálum.

Hún viðurkenndi að í „rauðu blokkinni“ væri mestur ágreiningur um stefnuna í útlendingamálum. Þetta væri raunverulegur ágreiningur sem ekki hyrfi eða minnkaði. „Ef Jafnaðarmannaflokkurinn breytir útlendingastefnu sinni glötum við trúverðugleika okkar,“ sagði flokksformaðurinn.

Í júní sagðist hún stefna að því að mynda minnihlutastjórn jafnaðarmanna á danska þinginu að kosningum loknum og yrði hún fús til samstarfs bæði til hægri og vinstri.

Þessi yfirlýsing hefur meðal annars leitt til þess að Morten Østergaard, formaður radíkala, hefur krafist skriflegra loforða af Mette Frederiksen eigi hann að styðja hana sem forsætisráðherra meðal annars um að ríkisstjórn hennar fylgdi útlendingastefnu sem ætti ekkert undir stuðningi Danska þjóðarflokksins (flokks Piu Kjærsgaard).

Mette Frederiksen segir að radíkalir geti gleymt öllum slíkum kröfum. Útlendingastefnunni verði ekki breytt. „Jafnaðarmannaflokkurinn getur ekki „zig-zaggað“ í útlendingamálum,“ segir hún.

Breyting innan Die Linke

Sama dag og Mette Frederiksen tekur af skarið á þennan hátt um harða stefnu danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum er sagt frá því í franska blaðinu Le Figaro að Sahra Wagenknecht, formaður þingflokks Die Linke (vinstri flokksins) á þýska þinginu, flokks, sem sameinar fyrrverandi kommúnista í Austur-Þýskalandi og vinstri arm jafnaðarmanna, ætli 4. september að stofna hreyfinguna Aufstehen (Uppréttur) sem fylgi meðal annars harðri stefnu í útlendingamálum. Segir franska blaðið að með því segi hún á róttækan hátt skilið innflytjenda- og aðlögunarstefnuna sem evrópskir vinstri flokkar fylgi almennt.

Þingflokksformaðurinn segir „barnaskap“ að hafa landamærin opin fyrir alla. Það falli að minnsta kosti „alls ekki að vinstristefnu“, það hefði verið miklu betra að nota milljarðana sem streymt hafi úr ríkissjóði Þýskalands síðan 2015 til að taka á móti aðkomufólki „í þágu þurfandi í Þýskalandi“.

Framtak Söhru Wagenknecht nýtur stuðnings Oskars Lafontaine, sem tók þátt í að stofna Die Linke. Lafontaine sat á sínum tíma í ríkisstjórn þýskra jafnaðarmanna. Þá styður sonur Willys Brandts, fyrrv. leiðtoga þýskra jafnaðarmanna, framtakið.

Í Le Fiagro segir að um alla Evrópu endurskoði áhrifamenn stefnu sína í útlendingamálum. Þetta eigi við um hægrisinnuð stjórnvöld eins og Póllandi, Ungverjalandi og Austurríki en einnig meðal vinstrisinna. Nýlega hafi Milos Zeman, forseti Tékkóslóvakíu og stofnandi jafnaðarmannaflokks landsins, sagt afdráttarlaust: „Óvininn er að finna í and-siðmenningunni sem teygir sig frá Norður-Afríku til Indónesíu.“

Höfundur greinarinnar í Le Figaro segir að erfitt sé að sjá fyrir sér að einhver franskur vinstri flokkur taki undir sjónarmiðin sem Sahra Wagenknecht boðar í útlendingamálunum.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …