Home / Fréttir / Danskir hermenn þjálfaðir gegn upplýsingafölsunum Rússa

Danskir hermenn þjálfaðir gegn upplýsingafölsunum Rússa

 

Danskir hermenn á æfingu.
Danskir hermenn á æfingu.

Danskir hermenn fá nú þjálfun til að átta sig á þeim ógnum sem felast í upplýsingafölsunum Rússa og falsfréttum þeirra. Einkum er lögð áhersla á að fræða 200 hermenn sem verða um áramótin sendir til starfa í Eistlandi undir merkjum NATO.

Flemming Splidsboel Hansen, sérfæðingur við Dansk Institut for Internationale Studier, segir við danska útvarpið að það sé gott framtak hjá Claus Hjort Frederiksens varnarmálaráðherra að beita sér fyrir þessari þjálfun hermannanna.

Rússar hafa hafa komið af stað röngum sögusögnum um óhæfuverk NATO-hermanna í Eystrasaltslöndunum, til dæmis um að þýskur hermaður hafi nauðgað litháískri stúlku í febrúar. Flemming Splidsboel Hansen segir:

„Þetta er dæmi um hvernig reynt er að skapa vantraust í garð NATO-hermannanna sem sendir eru til annarra landa.“

Hann bendir á að barátta standi um almenningsálitið í Eystrasaltslöndunum og Póllandi þar sem hermenn á vegum NATO hafa einnig aðsetur. Reynt sé að grafa undan NATO meðal almennings í löndunum þótt bandalagið sé almennt haft þar í hávegum.

„Almennt nýtur NATO mikils álits í löndunum. Jafnframt er þar einnig andstaða við viðveru hermannanna og Rússarnir eru á móti henni og þess vegna er barist um almenningsálitið og þá getur NATO orðið fyrir rispum,“ segir Flemming Splidsboel Hansen.

Sagan í Litháen hófst með því að tölvubréf barst til lögreglunnar og forseta þings Litháens, mátti ætla að það væri frá starfsmanni í leikskóla. Þar sagði að þýskur hermaður hefði nauðgað barnungri stúlku.

Í ljós kom eftir að sagan hafði farið hratt um samfélagsmiðla að hvorki starfsmaðurinn né sagan áttu sér nokkra stoð í veruleikanum. Fyrir danska varnarmálaráðherranum og yfirstjórn danska hersins vakir að reyna að stöðva slíkan söguburð í tengslum við danska hermenn í Eistlandi eða annars staðar.

Flemming Splidsboel Hansen segir að taka verði ógn af þessu tagi alvarlega en hann hefur rannsakað og skrifað vísindaritgerðir um rússneskar upplýsingafalsanir. Hann segir þó erfitt að átta sig á því hvort Rússar hafi í raun nokkurn hag af því að ýta undir lygasögur.

„Þeir ná árangri á þann veg að við tölum mikið um þetta. Margir hafa áhyggjur af þessu. Hins vegar mjög erfitt að mæla áhrifin af þessu,“ segir Flemming Splidsboel Hansen

Danskir hermenn verði að leggja áherslu á að sýna gott fordæmi í öllu tilltiti. Fari einhver þeirra út af sporinu í bænum Tapa í Eistlandi geti það dregið stóran dilk á eftir sér. Best sé að vera við öllu búinn þegar komi að þessum þætti í viðleitni Rússa til að grafa undan NATO og móta almenningsálitið í Eystrasaltslöndunum.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …