Home / Fréttir / Danskir hermenn sendir til varðstöðu á landamærum og við samkunduhús gyðinga

Danskir hermenn sendir til varðstöðu á landamærum og við samkunduhús gyðinga

soldat-2a-615-330-e05a1f__dsc1355low

Þeir sem fara yfir landamæri Þýskalands og Danmerkur sjá nú danska hermenn við landamæravörslu. Danir sendu hermenn til starfa á landamærum sínum föstudaginn 29. september.

Hermennirnir eru liðsauki við dönsku lögreglumennina sem halda uppi gæslu á landamærunum gagnvart Slesvík-Holstein skammt frá borginni Flensborg í Þýskalandi. Danir hófu landamæragæsluna í janúar 2016 vegna bylgju farand- og flóttafólks sem flæddi yfir Evrópu.

Dönsk yfirvöld sögðu að hermennirnir tækju ekki beinan þátt í skoðun ferðaskilríkja eða farartækja þeirra sem leið eiga yfir landamærin. Verkefni þeirra væri að annast flutninga og sinna varðstöðu. Hermenn eru einnig á brautarstöðvum. Á þessu stigi er ætlunin að hermennirnir séu við þessi störf næstu þrjá mánuði.

Alls hafa 160 danskir hermenn verið þjálfaðir til þessara starfa en um helmingur þeirra stendur vörð við samkunduhús gyðinga í Danmörku og aðrar stofnanir þeirra auk sendiráðs Ísraels í Kaupmannahöfn.

Dönsk lögregluyfirvöld töldu nauðsynlegt að losa lögreglumenn undan þeim skyldum sem hermennirnir sinna nú til að fjölga þeim sem takast á við glæpahópa sem láta æ meira að sér kveða með skotbardögum í dönskum borgum. Talið er að 128 lögreglumenn geti nú horfið til annarra starfa en landamæravörslunnar eða varðstöðu við stofnanir og mannvirki gyðinga.

Þýska fréttastofan DW segir að Daniel Günther, forsætisráðherra Slesvík Holstein, hafi farið til Kaupmannahafnar til að kvarta við Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana, undan landamæravörslunni. „Við viljum ekki að þetta verði varanlegt ástand,“ sagði hann.

Framkvæmdastjórn ESB lagði fyrir nokkrum dögum til að tímabundin heimild til að sinna landamæravörslu innan Schengen-svæðisins yrði framlengd. Að óbreyttu hefðu Þjóðverjar, Austurríkismenn, Danir og Norðmenn orðið að binda enda á landamæravörslu sína í nóvember miðað við tveggja ára hámarksregluna fyrir Schengen-ríki. Nái tillaga framkvæmdastjórnarinnar fram að ganga geta ríkin haldið uppi gæslu í enn eitt ár enda færi þau viðundandi rök fyrir að það sé nauðsynlegt til gæslu öryggis.

Dimitris Avramopoulos, innanríkismálastjóri ESB, sagði að ekki væri lengur unnt að réttlæta vörslu landamæra með vísan til þess að fólk streymdi til Evrópu um Grikkland og vesturhluta Balkanskaga.

Danski þjóðarflokkurinn lagði í apríl 2016 til að hermönnum yrði beitt til að létta undir með lögreglunni. Jafnaðarmenn og Frjálslynda bandalagið (Liberal Alliance) studdu tillöguna og einnig Íhaldsflokkurinn og Venstre.

Nú segja 82% Dana í netkönnun BT að það sé góð hugmynd að hermenn standi vörð við samkunduhús gyðinga við Krystalgade í Kaupmannahöfn.  Þegar leitað er álits vegfarenda í Danmörku á ákvörðuninni um að hafa vopnaða hermenn við störf á götum úti eru skiptar skoðanir en fleiri styðja það en eru andvígir þótt fólk vilji almennt að ástandið sé annað en að þessa sé þörf af ótta við hryðjuverk.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …