Home / Fréttir / Danskir bændur mótmæla ríkisstjórn og minkadrápum

Danskir bændur mótmæla ríkisstjórn og minkadrápum

Danskir bændur mótmæla minkaeyðingunni.
Danskir bændur mótmæla minkaeyðingunni.

Danskir bændur efndu til mótmæla á hundruðum dráttarvéla í Árósum og Kaupmannahöfn laugardaginn 21. nóvember undir kjörorðinu: Folkestyret hylder Grundloven eða almenningur styður stjórnarskrána. Á mótmælaspjöldum stóð einnig „gegn valdníðslu, skorti á virðingu fyrir stjórnarskránni, lýðræðishalla – og í þágu lýðræðis!“

Tilefnið er ákvörðun dönsku ríkisstjórnarinnar um að láta aflífa alla minka í Danmörku til að hefta útbreiðslu COVID-19-faraldursins. Í leiðara Jyllands-Posten laugardaginn 21. nóvember er farið mjög hörðum orðum um Mette Frederiksen, forsætisráðherra jafnaðarmanna, og hún sögð valdafíknasti oddviti danskrar ríkisstjórnar eftir J.B.S. Estrup (1825-1913) sem var ráðherra í 23 ár, lengur en nokkur annar Dani.

Estrup sat á þingi fyrir Hægriflokkinn sem hlaut hrikalega útreið í kosningum 1884 (aðeins 19 þingsæti af 102). Hvað sem kosningaúrslitunum leið neitaði Estrup að víkja sæti sem oddviti ríkisstjórnarinnar (þá konseilspresident statsminister forsætisráðherra) honum tókst að stjórna með bráðabirgða-fjárlögum sem Kristján konungur IX. undirritaði. Auk þess sem hann naut stuðnings í Landstinget, efri deild danska þingsins þar sem helmingur þingmanna var konungkjörinn. Þessi tími bráðabirgða-fjárlaga stóð frá 1885 til 1894.

Jyllands-Posten segir að það sé dapurlegur vitnisburður um þá fyrirmælastjórn sem þjóðin hafi orðið að búa við undanfarna átta mánuði að á árinu 2020 sé talið nauðsynlegt að mótmæla í þágu folkestyret og stjórnarskrárinnar. Forsætisráðherrann hafi tekið sér allt vald í hendur og farið með það að vild eða í krafti þess að hljóta eftir á samþykki.

Mette Frederiksen hafi notað „almannaheilsu“ sem rök fyrir öllum fyrirmælum sínum, þar á meðal ákvörðunum án lagaheimilda, en það eigi við um skipunina til bænda um að slátra minkarækt í Danmörku.

Blaðið segir að svo virðist sem forsætisráðherrann telji að „tillitið til almannaheilsu“ víki ákvæðum stjórnarskrárinnar til hliðar. Engu máli skipti að eignarrétturinn sé tryggður með stjórnarskránni, friðhelgi heimilisins og einstaklingsfrelsi. Hvað sem þessu líði hafi forsætisráðherrann sagt á Amalienborg Slotsplads fimmtudaginn 19. nóvember að hún telji sig „gera það sem er rétt þegar ég er upplýst um að ekki sé nauðsynleg lagaheimild fyrir hendi“. Geri það rétta? spyr blaðið.

Það segir að á ólöglegum grundvelli hafi lögreglan haft samband við danska minkabændur og sagt þeim að aflífa alla minka. Lögreglumennirnir hafi minnt á sölumenn farsímaáskriftar þegar þeir buðu bónus, yrði farið fljótt að fyrirmælunum. Þetta gerist meira að segja eftir að Mette Frederiksen er „upplýst um að ekki sé nauðsynleg lagaheimild fyrir hendi“.

Blaðið segir að ekki aðeins vegna mannlegs umfangs og efnahagslegra áhrifa heldur einnig vegna yfirlætisfulls virðingarleysis fyrir lögunum sé minkahneykslið stærsta pólitíska hneyksli í Danmörku í marga áratugi – stærra en Tamíla-málið sem leiddi til stjórnarkreppu og fyrsta landsdómsmálsins í Danmörku frá 1910. Þess vegna sé dapurlegt að verða vitni að því hve ríkisstjórnin og þingmennirnir að baki henni leggi mikla áherslu á að koma í veg fyrir að setja á fót minkanefnd. Þess í stað sé ýjað að lögfræðingarannsókn. Blaðið minnir á að flestir embættismennirnir sem komu að minkahneykslinu séu lögfræðingar. Lýsir blaðið undrun sinni yfir því komi ríkisstjórninni og stuðningsflokkum hennar til hugar að lögfræðingar rannsaki lögfræðinga og það dugi til að skilgreina ábyrgðina á kerfisbundinni eyðileggingu minkaræktunarinnar.

Jyllands-Posten segir að Mette Frederiksen sé valdasjúk og hana verði að stöðva. Frumvarp til nýrra farsóttarlaga verði að stöðva. Það verði að innleiða folkestyret að nýju og það verði tafarlaust að skipa minkanefnd til að grandskoða „svartasta kaflann í stjórnmálasögu síðari ára“. Í þessum kafla sjáist á ógnvekjandi skýran hátt hve illa fari þegar lýðræðið sé haft að engu og „allt vald  safnast á hendi eins einstaklings“.

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …