Home / Fréttir / Danski varnamálaráðherrann varar við kínverskum falsfréttum

Danski varnamálaráðherrann varar við kínverskum falsfréttum

Trine Bramsen
Trine Bramsen

Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, er ómyrk í máli um að ógnir gegn dönsku samfélagi aukist vegna kóróna-hættuástandsins. Allir Danir eigi að gæta sérstakrar varúðar. Hún segir að erlend ríki og öfgahópar reyni að nýta sér kóróna-ástandið. Hættan vegna þessa aukist eftir því sem tíminn líði því að örvænting kunni í vaxandi mæli að búa um sig meðal þjóðarinnar. „Þess vegna er ástæða til að hafa ábyggjur. Enginn vafi er á að erlend ríki geta nýtt sér hættuástandið, einnig til lengri tíma,“ sagði varnarmálaráðherrann í byrjun vikunnar.

Í Jyllands-Posten er mánudaginn 30. mars  vitnað í heimildarmenn í Kína sem segja til dæmis að á stóra kínverska samfélagsmiðlinum Weibo hafi birst falsfréttir sem eigi að sýna dönsk skólabörn syngja and-kínverska söngva. Mikil herferð hófst gegn Dönum í Kína eftir að skopmynd af kórónaveirunni birtist í Jyllands-Posten, þar var veiran sett í stað gylltra stjarna í kínverska fánann.

Trine Bramsen segist hafa fengið fregnir af þessu dæmi og öðrum og þau séu til marks um ósæmilegar blekkingar til að beita Dani þrýstingi. Að sjálfsögðu syngi dönsk skólabörn ekki slíka söngva. Hér sé um falsfréttir að ræða.

Varnarmálaráðherrann varar við því að hætta aukist á tölvuárásum á mikilvæg gangvirki samfélagsins eins og raforkukerfið, heilbrigðiskerfið, vatnsveitur og fjarskipti. Æfðar hafi verið varnir gegn slíkum árásum.

Leyniþjónusta danska hersins Forsvarets Efterretningstjeneste (FE) birti í lok nóvember 2019 síðasta hættumat sitt. Þetta ber hæst:

  • Rússland: Það er markmið Rússa að endurreisa sig sem stórveldi í heiminum. Rússar hervæðast og útiloka ekki stríð við NATO. Það eykur spennu á Eystrasaltssvæðinu.
  • Netógnin: Það er viðvarandi mikil ógn af tölvuárás. Árás glæpamanna eða ríkisaðila getur haft umtalsverðar afleiðingar.
  • Kína: Stórveldið styrkir enn alþjóðlegt vald sitt og óskar einnig eftir að fá aukin áhrif á norðurslóðum, þar á meðal á Grænlandi.
  • Hryðjuverk: Vesturlönd búa enn við hættu af árás herskárra íslamista en árásunum fækkar.
  • Norðurslóðir: Aukin hervæðing og stórveldakeppni á norðurslóðum milli Rússa, Bandaríkjamanna og Kínverja hækka spennustigið.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …